Fjórir í það minnsta eru sagðir hafa verið nefndir sem hugsanlegir kandídatar í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í næstu sveitarstjórnarkosningum í stað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, sem tók við sem innanríkisráðherra eftir þingkosningar í vor.

Fréttablaðið segir þá sem mest hafi verið í umræðunni vera þau Júlíus Vífil Ingvarsson, sem hafi staðfest að hann sækist eftir sætinu, og Kjartan Magnússon, sem segir það koma til greina. Þá sagði Gísli Marteinn Baldursson að hann gæti hugsað sér að leiða flokkinn í borginni. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, er svo sú fjórða sem Fréttablaðið nefnir.

Blaðið hefur sömuleiðis eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, þingmanni flokksins, að rætt hafi verið við hann um málið. Hann segist í samtali við blaðið á kafi í öðrum verkefnum eins og er og hugsunin ekki komin lengra.