*

þriðjudagur, 22. janúar 2019
Fólk 13. júní 2018 13:01

Fjórir ráðnir til H:N Markaðssamskipta

H:N Markaðssamskipti hafa ráðið fjóra nýja starfsmenn til starfa.

Ritstjórn
Á myndinni eru þeir Ari, Birgir Freyr Stefánsson og Pétur Eggerz.
Aðsend mynd

H:N Markaðssamskipti hafa ráðið fjóra nýja starfsmenn til starfa tvo grafíska hönnuði, einn sýndarveruleikahönnuð og einn verkefnastjóra í nýsköpunardeild fyrirtækisins. Með ráðningu fjórmenninganna víkkar H:N enn frekar út starfsemi sína en stofan byggir nú þegar á breiðum grunni – allt frá grafískri hönnunar yfir til almannatengsla og frá markaðs- til birtingaráðgjafar. Nú bætist nýsköpunardeild og sýndarveruleiki við. 

„Piltarnir eru frábær viðbót við stofuna, enda allir gríðarlega ólíkir og með mismunandi styrkleika sem falla vel að þeim fjölbreyttu verkefnum sem við sinnum hér á stofunni. Við höfum til að mynda verið að færa okkur upp á skaftið í þróun sýndarveruleika (e. virtual reality og augment reality) svo þeir Pétur og Birgir koma inn á mjög góðum tíma með sína sérþekkingu og reynslu af þessum fræðum. Chris og Ari eru auðvitað margreyndir í sínu fagi og það er gott að bæta öflugum reynsluboltum við hópinn,” segir Ingvi Jökull Logason, eigandi og framkvæmdastjóri H:N Markaðssamskipta. 

Chris Humphris, margverðlaunaður hönnuður frá Bretlandi, hefur tekið við stöðu hönnunarstjóra.  Chris starfaði hjá H:N árið 2008 og um tíma sem hönnunarstjóri og yfirhönnuður á hönnunarstofum í Bretlandi. Frá 2015 hefur Chris starfað sjálfstætt og sem hönnunarráðgjafi British Telecom. Þá hefur hann unnið fyrir ýmis spennandi frumkvöðlafyrirtæki. Chris er giftur Rebekku Andrínudóttir Humphris innanhússhönnuði.

Ari er grafískur hönnuður sem útskrifaður er frá LHÍ. Hann starfaði áður sem grafískur hönnuður hjá Ennemm og þar á undan hjá Fíton. Ari hefur auk þess hannað, skrifað, ritstýrt og gefið út tónlistar – og menningarblaðið Undirtóna, enda þeytir Ari skífum og gengur þá undir listamannsnafninu Plasmic. 

Birgir Freyr Stefánsson hefur tekið við stöðu verkefnastjóra nýsköpunardeildar H:N. Hann lauk nýverið BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og vann áður hjá framleiðslufyrirtækinu Motive Production. Unnusta Birgis er Bergljót Pétursdóttir og eiga þau tvær dætur. 

Pétur Eggerz er með BA-gráðu frá Arts University Bournemouth í Bretlandi, þar sem hann sérhæfði sig í hreyfimyndaframleiðslu (e. animation production). Hann stofnaði í kjölfarið Motive Productions – en þar lagði hann megináherslu á þrívíddarframleiðslu og hönnun, auk framleiðslu á sýndarveruleikaefni. 

H:N Markaðssamskipti er meðal elstu auglýsingastofa landsins og hefur unnið til fjölda verðlauna á þeim 28 árum sem hún hefur verið starfrækt.