Samkvæmt frétt breska blaðsins The Indepentent hefur FL Group dregið sig út úr kapphlaupinu um bresku samlokukeðjuna Pret A Manger. Því var haldið fram fyrir skömmu að  FL Group væri einn þriggja aðila sem hefðu hug á að gera tilboð í keðjuna. Nú virðist ljóst að fjárfestingafélögin Lion Capital og Bridgepoint Capital sitja ein að félaginu.

Samkvæmt frétt blaðsins hefur FL Group dregið sig út úr kapphlaupinu um Pret A Manger en ekki liggur nákvæmlega fyrir af hverju FL Group hættir við. Þó vitnar Independent til heimilda sem segja að 450 milljóna punda verðmiði (56 milljarðar króna) hafi einfaldlega þótt allt of hár.

Pret A Manger rekur 150 verslanir sem dreifast víða, svo sem til Hong Kong og New York. Tilboðshafar hafa hafið áreiðanleikakannanir og gert er ráð fyrir að sölu verði lokið innan nokkurra mánaða.