FL Group hefur sent stjórn flugfélagsins AMR í Bandaríkjunum bréf og óskað eftir því að hún leiti nýrra leiða til að auka virði félagsins. FL Group á í dag 8,3% hlut í AMR og er í hópi stærstu hluthafa þess. Tillögur félagsins fela meðal annars í sér að Vildarklúbbur AMR, AAdvantage, verði aðskilinn frá rekstri félagsins.

Í frétt félagsins kemur fram að stjórnendur FL Group telja að þrátt fyrir mikla samkeppni á markaði, þá leynist góð tækifæri til að auka verðmæti AMR og hefur lagt hart að stjórn þess að bregðast skjótt við. FL Group telur að falin verðmæti í rekstri AMR séu umtalsverð og að hægt sé að auka virði félagsins um a.m.k. 250 milljarða króna, sé Vildarklúbbur félagsins aðskilinn. Þá telur félagið að upplýsingagjöf AMR sé ófullnægjandi er varðar einstaka rekstrareiningar og fjárfestar eigi því erfitt með að meta afkomu þeirra og heildarvirði AMR.


?FL Group hefur umfangsmikla reynslu af rekstri flugfélaga og við teljum að stjórn AMR beri að leita nýrra leiða til að auka verðmæti félagsins. Með því að aðskilja Vildarklúbb félagsins verður hægt að minnka skuldir og auka virði AMR," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group.