„Þegar ég byrja að fljúga á Ísafirði árið 1969, en ég stofna þar fyrirtækið um vorið 1970, þá voru engar samgöngur, enginn Djúpvegur kominn og heiðarnar og vegirnir lokaðir sex til átta mánuði á ári. Við fengum mikla hvatningu frá læknunum á sjúkrahúsinu fyrir vestan, enda gátu þeir ekki komist neitt nema siglandi eða fljúgandi,“ segir Hörður Guðmundsson flugstjóri og forstjóri Flugfélagsins Ernis, en hann var í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins .

Þar ræddi hann m.a. um kyrrsetningu nýjustu skrúfuþotu félagsins og undarlegar ástæður fyrir því að hann fær ekki að veðsetja húsnæði fyrirtækisins fyrir skuldinni við ISAVIA. Einnig ræddi hann um aðstæður í innanlandsfluginu .

„Önnur stoð undir reksturinn var að við vorum með samninga við Póst og síma um áætlunarflug innan fjórðungsins og sama var uppi á teningnum í öðrum landshlutum. Það var eitt félag starfandi á Akureyri, eitt á Egilsstöðum, eitt í Vestmannaeyjum og svo tvö til þrjú fyrirtæki hérna í Reykjavík. Síðan var tekin ákvörðun um að færa póstsendingarnar niður á jörðina og síðan var sjúkraflugið samhæft á Akureyri og þá voru góð ráð dýr,“ segir Hörður sem flaug í mörg ár í sérverkefnum fyrir hjálparstofnanir í Afríku samhliða öðrum verkefnum hér heima.

„Þó að veðurfarið þar sé allt öðruvísi en fyrir vestan var þar margt að varast og stundum átakanlegar aðstæður. Um þetta leyti var ládeyða fyrir vestan í kjölfar kvótasetningarinnar og snjóflóðanna sem tóku sinn toll á samfélagið. Áður höfðum við mikið verið að vinna fyrir sjávarútveginn fyrir vestan, við flugum um land allt með bæði áhafnir og til að sækja varahluti, jafnvel til útlanda. Í einu tilfelli rétt upp úr 1970 hafði frést af loðnugöngu á Hornafirði, en þó að vélarnar væru litlar var samt hægt að fljúga þvert yfir landið og taka um 300 kíló af beitu sem leiddi til bullandi fiskirís. Ég fór í margar svona ferðir fyrir Einar Guðfinnsson og fleiri útgerðarmenn á svæðinu, sem var uppgrip fyrir lítið félag.“

Aftur komin á malarvellina

Hörður segir flugvallarkerfið hér á landi alveg sama marki brennt og vegakerfið. „Það hafa ekki fengist peningar í þetta í mörg undanfarin ár, sem hefur verið alveg skelfilegt. Auðvitað þegar við vorum að byrja hérna í gamla daga þá voru vellirnir lélegir malarvellir. Síðan var gert töluvert átak í því að bjarga því, og vellirnir malbikaðir og fleira. En nú hefur völlunum fækkað verulega, en þeir sem eftir eru fá ekki það viðhald sem þeir þurfa. Það hefur þýtt í sumum tilfellum að við erum komast aftur á malarvellina, því malbikið er ónýtt. Við höfum varla sent mótor í viðgerð undanfarin ár öðruvísi en hann hafi orðið fyrir einhverjum innri skemmdum vegna þess að það grjót og aðrar agnir úr flugvöllunum sjálfum sogast inn í þá og eru að valda skemmdum sem hefur kostað félagið milljónir,“ segir Hörður og nefnir dæmi.

„Vestmannaeyjar voru svolítið erfiðar á tímabili, en það var þó lagað. Fyrir tveimur eða þremur árum voru gerðar betrumbætur á Húsavík, en það láðist að setja yfirborðslagið sem átti að líma allt saman, og það var ekki gert fyrr en vélarnar okkar höfðu orðið fyrir verulegum skemmdum. Við berum sjálf allan þennan kostnað, tryggingarnar taka mjög takmarkaðan þátt í svona skemmdum. Bara það að fá einn stein í gegnum mótor kostar margar milljónir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .