Ölgerðin Egill Skallagrímsson selur nú meira magn af sykurlausum drykkjum en sykruðum og er Kristall nú orðið stærsta vörumerki fyrirtækisins.  Algjör viðsnúningur hefur orðið á drykkjarvenjum Íslendinga síðustu árin, en sem dæmi má nefna að árið 2002 var einungis þriðjungur seldra drykkja frá Ölgerðinni sykurlaus að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Kolsýrt vatn er nú orðið stærsti vöruflokkur gosdrykkja og þar ber Kristall höfuð og herðar yfir aðra drykki hér á landi. „Í lok árs 2016 settum við Kristal með jarðaberja- og límónu bragði á markaðinn og hann sló samstundis í gegn. Kristall er vinsælasti sykurlausi drykkurinn  og svarar kalli neytenda um hollari kolsýrða drykki. Þá má nefna að sykurlaust Pepsi eða Pepsi Max er sá drykkur á gosdrykkjarmarkaði sem hefur verið í hvað mestri aukningu og hefur hlutdeild þess vörumerkis aldrei verið hærra,“ segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.