Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia segir að ýmsar leiðir séu færar til að ríkið þurfi ekki eitt að standa að baki þeirri uppbyggingu sem framundan er, m.a. í Keflavík, en hann hafi sjálfur ekki skoðað eina leið umfram aðra.

„Hægt er að selja fyrirtækið í heild sinni eða að hluta, selja B-hlutabréf í fyrirtækinu eða gera einhvers konar uppbyggingar- og þjónustusamninga um ákveðna hluta rekstursins. Hægt er að setja eignir í eignarhaldsfélag og selja það. Ein leið sem farin var í Pristina [í Albaníu] er að gera samning, t.d. til 20 ára, sem felur það í sér að einkaaðili rekur flugvöllinn með þeirri kvöð að gera ákveðnar fjárfestingar og uppbyggingu á vellinum á þeim tíma. Þessi aukafjárfesting er þá í raun leigan sem ríkið fær greitt fyrir vikið.

Það eru margar leiðir til að ná þessu markmiði ef áhugi er fyrir því, en einnig er hægt að gera ekkert og viðhalda því rekstrarfyrirkomulagi sem fyrir er og hefur að mínu mati reynst mjög vel.

Þetta verður hins vegar að skoða vel, ekki af því að einkavæðing í einhverju formi er markmið í sjálfu sér, heldur til að finna réttu leiðina, hagkvæmustu leiðina til að reka flugvöllinn og fyrirtækið og afla þess fjármagns sem þarf til að byggja völlinn upp. Fjárfestingarþörfin í Keflavík kallar á heilbrigða og opna umræðu, hvort sem ákveðið verður að fjármagna uppbyggingu með lántöku eða öðrum hætti. Það er hins vegar stjórnar og eiganda að taka endanlega ákvörðun. Það á ekki að vera fyrirtækisins að mynda stefnu í máli eins og þessu.“