Á síðasta ári voru 4.207 fæddir einstaklingar skráðir í þjóðskrá og 9.834 skráningar erlendra ríkisborgara. Á árinu 2017 voru 4.038 skráningar fæddra einstaklinga sem gerir aukningu milli ára upp á tæp 4,2%. Hins vegar var samdráttur í skráningu erlendra ríkisborgara milli ára en á árinu 2017 voru 10.515 erlendir ríkisborgarar skráðir í þjóðskrá og er því samdráttur milli ára um 6,5%. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Þjóðskrá Íslands .

Alls voru skráðir 1.069 fæddir í þjóðskrá á 4. ársfjórðungi síðasta árs, 1.434 nýskráðir erlendir ríkisborgarar og 81 nýskráður Íslendingur þ.e. íslensk börn sem fædd eru erlendis. Alls var tilkynnt um 571 andlát.

Alls voru 44.675 erlendir ríkisborgarar búsettir hér á landi 1. febrúar sl. og hefur þeim fjölgað um 519 frá 1. desember 2018. Flestir erlendir ríkisborgarar eru frá Póllandi eða 19.399 og 4.138 einstaklingar eru með litháískt ríkisfang. Pólskum ríkisborgurum hefur fjölgað um 2.389 frá 1. desember 2017 og litháískum ríkisborgurum fjölgaði um 769 á sama tímabili.