*

fimmtudagur, 15. nóvember 2018
Innlent 21. febrúar 2018 14:02

Fleiri fylgjandi jafnlaunavottun

Í nýrri könnun meðal félagsmanna Félags atvinnurekenda fjölgar þeim sem eru fylgjandi jafnlaunavottun.

Ritstjórn
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Haraldur Guðjónsson

Í könnun meðal félagsmanna Félags atvinnurekenda, sem gerð var seinnipart janúar, sögðust samtals um 60% þeirra sem svöruðu spurningunni telja að lögbundin jafnlaunavottun myndi stuðla að auknu launajafnrétti að því er kemur fram í frétt á vef félagsins. Í sambærilegri könnun í fyrra sögðust 52% sammála eða mjög sammála slíkri fullyrðingu. Hlutfall þeirra svarenda sem segjast ósammála fullyrðingunni hækkar líka, úr 13% í 21%. Hópurinn sem svarar „hvorki né“ skreppur hins vegar saman, úr 35% í 19%.

Þá fjölgar þeim einnig sem telja að jafnlaunavottun hafi meiri ávinning en kostnað fyrir sitt fyrirtæki. Samtals eru um 41% fyrirtækja sem segjast sammála eða mjög sammála því að ávinningur af jafnlaunvottun sé meiri en kostnaður en í fyrra var hlutfallið 24%. Þá segjast 26% ósammála eða mjög ósammála því að ávinningur sé meiri en kostnaður. Tæplega 30% töldu hvorki ávinninginn né kostnaðinn meiri.