Ríkissjóður sendir út sterk skilaboð um ímynd íslenska ríkisins sem öruggs skuldara með því að greiða inn á lán frá Alþjóðagjadleyrissjóðnum og Norðurlöndunum áður en gjalddagi lánanna rennur upp, að sögn greiningardeildar Arion banka. Hún bendir á það í Markaðspunktum sínum í dag að viðskiptajöfnuður með þessari einu ráðstöfun batni um 4,7 milljarða króna. Það gefi þá annað hvort færi á frekari „Boston-ferðum“ Íslendinga eða, sem væri þjóðhagslega hagkvæmara, á að herða róðurinn í að safna í óskuldsettan gjaldeyrisforða.

Greint var frá því í gær að ríkissjóður og Seðlabankinn ætli að greiða 171 milljarð króna inn á lánin í vikunni. Þegar það verði fyrir horn standa eftir 47% af lánunum frá AGS og 41% af lánunum frá Norðurlöndunum.

Í Markaðspunktum greiningardeildarinnar segir að á meðan ekki er farið í í nýja lántöku blasi við að vaxtakostnaður gjaldeyrisforðans í erlendri mynt muni lækka. Fyrir endurgreiðsluna nam fastur vaxtakostnaður vegna gjaldeyrisforða Seðlabankans ríflega 30 milljörðum króna á ári. Þar sem lánin frá AGS hafa borið vexti upp á LIBOR+275 bps megi með ákveðinni einföldun draga þá ályktun að vaxtakostnaður forðans lækki um rúma 4,7 milljarða króna á ári og verði hann eftirleiðis um 25 milljarðar króna á ári.