Tæplega helmingur landsmanna, eða 49% segjast hafa notað handfrjálsan búnað við notkun farsíma undir stýri síðustu 12 mánuði að því er fram kemur í könnun MMR sem gerð var 8. til 12. nóvember. Á sama tíma sögðust 34% hafa talað í síma án slíks búnaðar á tímabilinu en hlutfall þeirra hefur lækkað með hverri mælingu frá árinu 2010.

Er þetta í fyrsta sinn sem hlutfall þeirra sem nota búnaðinn er hærra en þeirra sem ekki nota hann á tímabilinu. Þann 1. maí síðastliðinn hækkuðu sektir fyrir ýmis konar umferðarlagabrot, en mest var hækkunin fyrir að nota ekki handfrjálsan búnað við farsímanotkun undir stýri, eða úr 5 þúsund krónum í 40 þúsund krónur.

Karlar reyndust líklegri en konur til að segjast hafa notað farsíma fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar, eða 41% karla á móti 27% kvenna. Jafnframt voru svarendur í yngsta aldurshópnum líklegri en annarra aldurshópa til að hafa ekki notað handfrjálsan búnað þegar þeir tóku símtöl, eða 58% þeirra.

Hlutfallið var jafnvel hærra meðal yngsta hopsins þegar þeir notuðu leiðsögukort eða 58% og loks sögðust 32% þeirra hafa skrifað eða lesið skilaboð undir stýri. Heilt yfir sögðust þó 16% hafa notað farsíma til að skrifa og eða lesa sms, tölvupóst eða önnur skilaboð við akstur.