Íbúðum á Akureyri hefur fjölgað um 4,5% frá árinu 2011 en á sama tímabili hefur íbúðum í Reykjavík fjölgað um ríflega 3,3%. Akureyri er fjórða fjölmennasta sveitarfélag landsins á eftir Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði.

Í dag búa um 18.400 manns á Akureyri og hefur íbúum fjölgað um 4,1% frá árinu 2011. Til samanburðar búa um 123.300 manns í Reykjavík og hefur íbúum höfuðborgarinnar fjölgað um 3,7% frá 2011. Þessar upplýsingar koma fram í tölum Þjóðskrár Íslands og Hagstofu Íslands.

Á síðasta ári var heildarvelta fasteignamarkaðarins á Akureyri 22,8 milljarðar króna samanborið við 8,9 milljarða veltu árið 2011. Aukningin nemur 157%. Í Reykjavík nam veltan 177,7 milljörðum króna í fyrra en árið 2011 nam veltan 74,3 milljörðum.  Í höfuðborginni hefur veltan því aukist um 139% á þessu tímabili.

Viðskiptablaðið skoðaði meðalverð á íbúðum í fjölbýli á Akureyri og höfuðborgarsvæðinu á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2017, 2015, 2013 og 2011. Sömuleiðis var meðalverð á 100 til 400 fermetra sérbýli á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu á sama tímabili skoðað. Tölurnar byggja á upplýsingum úr nýrri verðsjá Þjóðskrár Íslands en þær upplýsingar byggja á þinglýstum kaupsamningum fasteigna.

Það vekur nokkra athygli að frá árinu 2011 hefur hlutfallsleg verðhækkun sérbýlis verið mjög svipuð á þessum tveimur stöðum. Á Akureyri hefur verðið hækkað um tæplega 50% en á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 55%. Verð á íbúðum í fjölbýli hefur hækkað nokkuð meira á höfuðborgarsvæðinu frá sama tíma eða um 77% samanborið við 67% á Akureyri.

Tekur seinna við sér

Björn Guðmundsson, sölustjóri hjá Fasteignasölunni Byggð á Akureyri, segir þekkt að markaðurinn á Akureyri taki seinna við sér en á höfuðborgarsvæðinu.

„Sveiflan fer sex til tíu mánuðum seinna af stað hjá okkur," segir Björn. „Frá árinu 2010 hefur fasteignamarkaðurinn á Akureyri verið vaxandi. Það var ekki mikið af húsnæði í byggingu eftir hrun, á árunum 2010 og 2011. Aftur á móti var þónokkuð af fjölbýlishúsalóðum tilbúið til byggingar. Bærinn var því vel í stakk búinn til að takast á við uppbygginguna eftir þetta. Árin 2013 og 2014 var megnið af lóðunum uppurið. Þá fórum við að sjá verulegar hækkanir á íbúðum í eldra fjölbýli og fljótlega fóru þær hækkanir út á allan markaðinn, líka sérbýlið.

Það sem hefur gerst núna, eða frá miðju síðasta ári, er að fasteignamarkaðurinn á Akureyri hefur snúist úr því að vera kaupendamarkaður yfir í að verða seljendamarkaður. Við sjáum það á því að framboð eigna á sölu hefur minnkað verulega og það er mikil eftirspurn. Þetta hefur auðvitað leitt til þess að fasteignaverð hefur hækkað mikið. Eignir sem eru undir 35 milljónum króna seljast mjög fljótt aftur á móti er salan á dýrari eignum miklu hægari. Þá á ég við eignir sem kosta 55, 65 eða 80 milljónir."

Frekari hækkun?

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins hefur fermetrinn í sérbýli verið að seljast á 257 þúsund að meðaltali á Akureyri en á höfuðborgarsvæðinu á tæplega 336 þúsund. Á Akureyri er fermetraverðið í sérbýli því um 76% af því sem það er á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tímabili er fermetraverð í fjölbýli á Akureyri um 71% af því sem það er á höfuðborgarsvæðinu.

„Það hefur oft verið talað um að verðið á Akureyri sé að jafnaði um 80% af því sem það er á höfuðborgarsvæðinu og ég tel því að við eigum töluverða hækkun enn inni," segir Björn. „Hitt gæti náttúrlega líka gerst að verðið á höfuðborgarsvæðinu myndi lækka og þannig myndi þetta langtímahlutfall jafnast út."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .