Afgreiðslu húsaleigubóta hefur fjölgað um sex hundruð, eða tæp 9%, í Reykjavík á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Hefur kostnaður vegna bótanna hækkað um tæp fimmtán prósent.

Í samtali við Fréttablaðið segir Ellý Alda Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri Velferðarsviðs Reykjavíkur, fjölgunina vera fyrst og fremst á almennum markaði og námsmannaíbúðum. „Með hliðsjón af þeim efnahagsþrengingum sem þjóðin hefur gengið í gegnum er ekki órökrétt að áætla að fleiri eigi rétt á bótum en áður vegna lægri tekna,“ segir Ellý, en segist þó ekki vita með fullri vissu hver ástæða fjölgunarinnar sé.

Hólmsteinn Brekkan, framkvæmdastjóri Samtaka leigjenda, telur þó að fleiri séu upplýstir um réttindi sín og það sé ástæða fjölgunarinnar. „Við höfum hamrað á þessu við leigjendur því það eru svo margir sem hafa ekki hugmynd um bótaréttinn,“ segir Hólmsteinn í samtali við Fréttablaðið, og bætir við að margt af eldra fólki, sem samtökin hafi rætt við, hafi til dæmis ekki haft hugmynd um tilvist húsaleigubóta.