„Í bönkum vinnur fólk sem hegðar sér eins og vélmenni og framkvæmir vélræna hluti, í framtíðinni munum við kynnast vélmennum sem hegða sér eins og fólk,“ þetta sagði John Cryan, bankastjóri Deutsche Bank á ráðstefnu í Frankfurt. Bankastjórinn varaði við því að stór hluti starfsmanna bankans myndi missa vinnuna vegna tæknibreytinga og aukinnar tæknivæðingar. Financial Times fjallar um málið.

Cryan er nú hálfnaður með fimm ára hagræðingaráætlun Deutsche Bank — sem felur meðal annars í sér fjöldauppsagnir starfsmanna bankans. Hann lét einnig þau ummæli falla að satt best að segja þyrftu bankar ekki svona margt fólk í þjónustustörf og að því þyrfti að leita til nýrra leiða til þess að ráða fólk. Þegar hann var inntur eftir svörum um hversu margir myndu missa vinnuna svaraði hann því einungis að stór hluti starfsmanna gæti tapað starfinu, en vildi ekki gefa nákvæma tölu. Hjá Deutsche Bank starfa um 100 þúsund manns um þessar mundir.

Hann nefndi sem dæmi bókhaldara, sem að Cryan sagði að „eyddu stórum hluta tíma síns eins og talnagrindur“. Skilaboðin til starfsmanna bankans voru því nokkuð skýr, bankastjórinn sagði að þau þyrftu að viðurkenna það að breytingarnar væru kannski ekki þægilegar þó að þær væru nauðsynlegar til framtíðar.

Erfiðleikar á síðustu árum

Ólánið eltir nú Deutsche Bank (DB), stærsta banka Þýskalands, einn stærsta banka Evrópu og eina mikilvægustu fjármálastofnun í heiminum. Árið 2016 var ógæfuár fyrir bankann . Bankinn hefur í raun ekki jafnað sig eftir efnahagskreppuna árið 2008. Gengi hlutabréfa í DB hefur dalað talsvert frá árinu 2007. Frá áramótum hefur gengi hlutabréfa félagsins lækkað um 0,62% en á árinu 2014 lækkaði gengi hlutabréfanna um 47,51% og í fyrra um 25,51%.

Deutsche Bank tapaði 1,4 milljörðum evra eða því sem samsvarar um 172 milljörðum íslenskra króna í fyrra. Þýski bankinn tapaði 1,9 milljarði á seinustu þremur mánuðum ársins 2016, vegna sektar sem bankinn þurfti að greiða vegna aðildar í fjármálahruninu 2008-2009.

Afkoma bankans á öðrum ársfjórðungi þessa árs var þó umfram væntingar. Starfsmannafjöldi fyrirtækisins lækkaði um 1.525 á ársfjórðungnum og 4.656 milli ára, en bankinn hefur verið að ganga í gegnum endurskipulagningu á efnahagsreikningi sínum og niðurskurð í kjölfar fjárhagsvandræða .