Mikill meirihluti félagsmanna í Félagi atvinnurekenda, eða 70%, telur að eftirlitsgjöld ríkisins séu ekki í samræmi við raunkostnað við eftirlitið og er hlutfall félagsmanna sem telja ríkið ofrukka talsvert hærra en undanfarin ár. Þetta kemur fram í nýrri könnun FA meðal félagsmanna.

Spurt var í könnuninni hversu sammála eða ósammála fyrirtækin væru fullyrðingunni „Eftirlitsgjöld hins opinbera eru í samræmi við raunkostnað við eftirlitið.“ Aðeins 10% sögðust sammála eða mjög sammála, en 70% segjast ósammála eða mjög ósammála. Í könnunum FA undanfarin ár hefur þetta hlutfall yfirleitt verið á milli 50 og 60%.

Enn engir kostnaðarútreikningar frá heilbrigðisráðuneyti

FA hefur mjög beitt sér fyrir því undanfarin ár að eftirlitsgjöld ríkisins séu reist á traustum grunni; eigi sér trygga lagastoð, gjaldskrár séu skýrar og aðgengilegar, gjaldtakan byggð á raunverulegum kostnaði og hækkanir gjalda rökstuddar með fullnægjandi hætti. Þessi barátta hefur ekki alltaf borið árangur; þess er skemmst að minnast að heilbrigðisráðuneytið hefur enn ekki birt kostnaðarútreikninga að baki 75.000 króna gjaldi sem lagt var á tilkynningar til Neytendastofu um markaðssetningu rafrettna eða tengdra vara með reglugerð í byrjun september á síðasta ári.