Vinnuslysum hefur fjölgað stöðugt frá árinu 2010 og er tíðni þeirra meiri nú heldur en í síðustu uppsveiflu. Árið 2015 barst Vinnueftirlitinu metfjöldi tilkynninga um vinnuslys eða yfir 2.000 tilkynningar, borið saman við 1.926 árið 2007. Sé litið til Slysaskrár Íslands er tíðnin meiri. Á milli 2011 og 2015 bárust heilbrigðisstofnunum að meðaltali 5.400 vinnuslysamál á ári. Það svarar til um 15 vinnuslysa á dag.

Jakob Sigurðsson, forstjóri VÍS, segir þróunina kalla á breytt viðhorf til forvarna og öryggismála á vinnumarkaði. VÍS stendur fyrir forvarnaráðstefnu þann 2. febrúar, en ráðstefnan er einn fjölsóttasti viðburður sinnar tegundar á öllu landinu. Þetta er í áttunda sinn sem hún er haldin, en til þessa hefur hún verið haldin undir merkjum bæði VÍS og Vinnueftirlitsins. Ráðstefnan verður undir fyrirskriftinni „Vinnuslys – Dauðans alvara“.

„Undirtónninn er alvarlegur enda alvarlegt málefni,“ segir Jakob. „Bláköld tölfræði er eitt og fjarlægir að einhverju leyti afleið- ingar vinnuslysa fjær okkur, sérstaklega þann harmleik sem oft býr að baki vinnuslysum. Eðlilega hlýst gríðarlegur kostnaður af vinnuslysum fyrir fyrirtækin, heilbrigðiskerfið, fjölskyldur og einstaklingana. Þar gildir einum þó einhverjar fjárhagslegar bætur komi fyrir vinnuslys. Það vegur aldrei upp á móti skertum lífsgæðum eða því áfalli sem hlutaðeigendur verða fyrir.“

Jakob segir markmið ráðstefnunnar vera að efla forvarnarvitund í hópi stjórnenda og starfsmanna allra fyrirtækja í landinu, sem og í samfélaginu almennt.

„Hún á einnig að auka og bæta yfirsýn stjórnenda yfir hættur í vinnuumhverfinu og þannig ná að greina í tíma tækifæri til úrbóta til að koma í veg fyrir að slys hljótist í vinnu. Þessi ráðstefna sem slík er liður í því sem við teljum vera samfélagslega ábyrgð okkar. Það verður að bregðast við ástandinu, enda eykst slysatíðni í beinu samhengi við uppgang í atvinnulífinu. Vinnuslys eru ekki eðlilegur fórnarkostnaður í þeim uppgangi. Við verðum að snúa því hugarfari við.“

Forvarnastarf í 23 ár

VÍS hefur verið með virkt forvarnarstarf undanfarin 23 ár, að sögn Jakobs.

„Það byrjaði með öryggi barna í bílstólum, umferðaröryggi almennt og fræðslu fyrir unga ökumenn. Fyrir ellefu árum síðan var farið að vinna markvisst að forvörnum fyrirtækja. Forvarnarstarfið tók stakkaskiptum upp úr 2008 þegar heildræn forvarnarstefna félagsins var sett fram.

Stefnan skiptist í þrennt: almenna fræðslu og upplýsingagjöf, forvarnir sem snúa að atvinnugreinum sem fela í sér meiri áhættu en aðrar, og svo forvarnir sem beinast að viðskiptavinum sem lenda oft í tjóni. Allir starfsmenn VÍS líta á sig sem forvarnarfulltrúa í einhverjum skilningi sem hluta af þessari stefnu.

VÍS hefur einnig þróað atvikaskráningarforrit frá 2014. Tilgangurinn er að auka og bæta yfirsýn, sjá hvar hættur geta verið í rekstrinum, hvar slys verða, hvar slys verða næstum því og hvernig sé hægt að koma í veg fyrir slys. Notendur eru um 3.500, bæði hjá fyrirtækjum og sveitarfélögum. Við gerum okkur vonir um að þrefalda notendafjöldann á þessu ári,“ segir Jakob.

Stjórnendur þurfa að sýna fordæmi

Jakob segir að stjórnendur verði að ganga á undan með góðu fordæmi í að efla forvarnir sem og forvarnarvitund. „Það er alltaf hægt að gera betur í forvörnum. Þar verða stjórnendur að ganga á undan með góðu fordæmi. Fólk gerir ekki endilega eins og þú segir heldur eins og þú gerir.

Fréttin birtist í Viðskiptablaðinu í dag á bls. 6 undir fyrirsögninni Færri vinnuslys en í síðustu uppsveiflu . Sú fyrirsögn er þó röng og átti þar að standa Fleiri vinnuslys en í síðustu uppsveiflu . Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .