Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um ríflega milljarð á fyrstu þremur mánuðum ársins miðað við tæplega 1,5 milljarða króna á sama tímabili fyrir ári. Þá nam rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir 1,6 milljörðum króna sem er aukning um 37% milli ára. Bókfært virði fasteigna félagsins í lok tímabils voru 133,5 milljarða króna en vaxtaberandi skuldir námu 80 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið 32%.

Rekstrartekjur námu 2,4 milljörðum en þar af voru leigutekjur 2,25 milljónir króna. Hækkun leigutekna frá sama tímabili í fyrra var 30%. Félagið á 120 fasteignir og er heildarfermetrafjöldi þeirra eigna um 380 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er um 97%.

Í uppgjörinu kemur fram að á næstu vikum muni nokkrar nýjar verslanir opna á Hafnartorgi. Verslanirnar munu fylgja í fótspor H&M sem opnaði sína þriðju verslun hér á landi á Hafnartorgi í október. COS, sem er einnig í eigu H&M mun opna tveggja hæða verslun við hlið H&M.

Þá mun verslunin Collections einnig opna en hún verður rekin af Föt og skór ehf., sem eiga m.a. Herragarðinn, Boss búðina og Mathildu. Auk þess munu GK Reykjavík, Michelsen, Optical Studio og Joe & The Juice opna á Hafnartorgi á næstu vikum. Þá segir jafnframt að breytingum á Smáralind sé lokið og eftir páska muni Monki og Weekday opna verslanir í vesturhluta Smáralindar, en vörumerkin eru bæði í eigu H&M.