Hækkandi olíuverð er að gera útaf við lítil flugfélög og verða sífellt fleiri þessara félaga gjaldþrota sökum þess. Rúmlega 20 flugfélög hafa neyðst til að leggja niður starfsemi sína á þessu ári og er það hæsta tala sem sést hefur í áratug. WSJ greinir frá þessu.

Flest af þeim flugfélögum sem hafa neyðst til að hætta starfsemi hafa verið frekar smá í sniðum og má þar sem dæmi nefna Primera Air, sem varð gjaldþrota í síðasta mánuði.

Stjórnendur reikna með að þessi þróun muni halda áfram, þrátt fyrir að olíuverð hafi lækkað aðeins að undanförnu, þar sem að það tímabil sem er nú að ganga í garð ber með sér færri flugfarþega. Neil Sorahan, fjármálastjóri lággjaldaflugfélagsins Ryanair, hefur meðal annars látið hafa eftir sér að fleiri og stærri gjaldþrot flugfélaga sé að vænta innan fluggeirans.