Ánægja þjóðarinnar með störf ráðherra var könnuð í annað sinn á kjörtímabilinu af Capacent Gallup. Voru 1000 manns spurðir um ánægju með störf ráðherra í nóvember.

Samkvæmt niðurstöðum kveðjast flestir ánægðir með störf Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, eða 30% aðspurðra. Næstmest ánægja er með störf Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra og segjast 26% aðspurðra ánægðir með störf hennar.

Þar á eftir kemur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra með 25% ánægju. Athygli vekur að mun minni ánægja er með Sigmund Davíð sem dómsmálaráðherra, eða meðal 18% aðspurðra.

Fæstir eru ánægðir með störf Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eða 17% aðspurðra.

Ánægja dregist saman

Hlutfall þeirra sem segjast óánægðir með störf ráðherra mældist hæst hjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, en 67% aðspurðra sögðust óánægðir með störf hennar.

Minnstrar óánægju gætir með störf Eyglóar Harðardóttur, eða um 39%.

Sé mælingin frá því í nóvember borin saman við fyrri mælingu í apríl má sjá að óánægja hefur almennt aukist. Skiptir þar mestu aukin óánægja með störf Hönnu Birnu og Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra. Á skalanum einn til sjö þar sem sjö þýðir að allir séu ánægðir með störf ráðherra mælist hún að meðaltali 3,1 borið saman við 3,3 í fyrri mælingu.