Flestir Íslendingar halda með Hollandi og Þýskalandi á HM í knattspyrnu, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar MMR. Tæpur helmingur, eða 43%, sagðist ekki eiga neitt uppáhalds lið á HM.

Flestir sögðu að Holland (15,4%) og Þýskaland (13,9%) væru sín uppáhalds lið. Önnur vinsæl lið á Heimsmeistaramótinu voru Brasilía (5,8%) og England (4,7%).

Þeir sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn voru líklegastir til að eiga uppáhalds lið á HM en þeir sem sögðust styðja Pírata voru ólíklegastir. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 69% Sjálfstæðismanna eiga uppáhalds lið á HM í fótbolta, borið saman við 39% Pírata.

Holland naut mestra vinsælda meðal stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins (24%), Bjartrar framtíðar (19%), Samfylkingarinnar (18%) og Vinstri-grænna (16%). Þjóðverjar voru hinsvegar vinsælastir meðal stuðningsfólks Framsóknarflokksins (17%) og Pírata (11%).

943 einstaklingar, átján ára og eldri, svöruðu spurningunni en könnunin var gerð dagana 18. til 23. júní 2014.