Í sumar munu 24 flugfélög halda uppi áætlunarflugi frá Íslandi til 57 evrópskra áfangastaða og 27 í Norður-Ameríku í vor, sumar og haust. Frá þessu er greint í frétt Túrista.is.

Næsta sumar býðst farþegum hér á landi í fyrsta sinn að fljúga beint til borganna Cork, Dresden, Katowice, Miami, Nurnberg, Philadelphíu, Pittsburg, Tampa og Trieste. Auk þess verður á ný hægt að fljúga beint til Prag - en ekki verður framhald á sumarflugi til Nice og Rómar.

Aukin samkeppni er á mörgum flugleiðum og hefur hún aukist frá því í fyrra. Til að mynda munu þrjú flugfélög halda uppi áætlunarflugi frá Keflavíkurflugvelli til Tornto og Montreal. „Icelandair og WOW air hafa líka fjölgað daglegum ferðum sínum til vinsælustu áfangastaðanna og þar með geta farþegar valið á milli nokkurra brottfara á degi hverjum til ófárra borga. Fyrir örfáum árum síðan var framboðið eingöngu svona mikið ef ferðinni var heitið til London og Kaupmannahafnar,“ segir jafnframt í frétt Túrista.

Flugfélögin Finnair frá Helsinki, Czech Airlines frá Prag og Air Canada frá Toronto og Montreal fara jómfrúarferðir sínar til Íslands í sumar. Auk þess munu fleiri flugfélög sinna leiguflugi á vegum íslenskra og erlendra ferðaskrifstofa.