Áhugi er meðal fjölda framboða í komandi kosningum að aðskilja fjárfestingabanka- og viðskiptabankastarfsemi. Þannig eru Björt framtíð, Flokkur fólksins, Píratar, Samfylkingin og Vinstri græn fylgjandi aðskilnaði þessara tveggja tegunda bankastarfsemi.

Þá vilja Vinstri græn einnig frekari aðskilnað milli innlendrar og erlendrar starfsemi íslenskra banka. Framsókn vill skoða kosti og galla þess að fara álíka leið og Bretar í aðskilnaði, en Viðreisn bendir á að þegar hafa verið gerðar umtalsverðar breytingar á regluverki bankakerfisins og er á móti algjörum aðskilnaði líkt og Sjálfstæðisflokkurinn. Þá er ekki að finna afstöðu til aðskilnaðar viðskipta- og fjárfestingabanka í stefnu Miðflokksins.

Samfylkingin vill afnema bankaskatt

Þá vill Samfylkingin afnema bankaskatt sem skilaði ríkissjóði 8,7 milljörðum á síðasta ári. Viðreisn vill lækka bankaskattinn í skrefum. Píratar og Flokkur fólksins styðja bankaskattinn en aðrir flokkar hafa ekki tekið endanlega afstöðu til málsins og nefna breytingar á honum í samhengi við endurskoðun á skipulagi fjármálakerfisins.

Bankaskattur var tekinn upp árið 2010 og nemur 0,376% af skuldum bankanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .