*

sunnudagur, 21. apríl 2019
Innlent 11. mars 2019 14:02

Flugfélög lækka víða í kjölfar slyss

Icelandair lækkar um svipað mikið og Boeing sjálft, en önnur flugfélög með Max 8 vélar lækka minna.

Ritstjórn
Ein af Boeing 737 Max 8 vélum Icelandair.
Haraldur Guðjónsson

Gengi bréfa Southwest Airlines , American Airlines og United Continental Holdings hafa öll lækkað á eftirmarkaði, sem og Icelandair, Norwegian og flugvélaframleiðandans Boeing, í kjölfar þess að önnur Boeing 737 Max 8 flugvélin hrapaði skömmu eftir flugtak á sex mánaða tímabili.

Einnig gætu fréttir um að Indigo Partners hyggist setja hátt í 11 milljarða króna í Wow air haft þar áhrif. Hefur slysið á flugvél Ethopian Airlines í gær þar sem 157 farþegar létust, en um borð voru ríkisborgarar yfir 30 landa, þar af fimm frá Norðurlöndunum, haft áhrif á hlutabréfaverð fjölmargra flugfélaga sem eiga þessa gerð flugvéla.

Þannig hefur gengi bréfa Icelandair lækkað um 8,82% í kauphöllinni í morgun, þegar þetta er ritað. Félagið á þrjár Boeing 737 Max 8 vélar og stefnir á að fá sex vélar til viðbótar, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er félagið búið að ganga frá fjármögnun allra vélanna.

Hefur gengi bréfa Boeing flugvélaframleiðandans nú lækkað um 10,61%, í kjölfar frétta um að Boeing 737 Max 8 vélar flugfélaga í Eþíópíu, Indónesíu þar sem 189 létust þegar vél Indonesia Lion Air hrapaði í hafið, og Kína hafi verið kyrrsettar.

Jens Þórðarson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair hefur sagt að félagið muni fylgjast með gangi mála í gegnum framleiðandann, Boeing, auk þess að vera í sambandi við evrópsk og íslensk flugmálayfirvöld. „Það er ekki ástæða til þess að stoppa flug á þessum tímapunkti miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir,“ segir Jens í samtali við RÚV.

Boeing 737 er mest selda flugvél í heimi, en Max 8 útgáfan er sparneytnari en fyrri vélar og ætluð sem svar við vélum helsta keppinautarins Airbus. Hefur félagið nú afhent um 350 Max 8 vélar, m.a. til Soutwhest Airlines en gengi bréfa félagsins hafa lækkað um 2,34% í dag, til American Airlines sem hafa lækkað um 0,25% og til United Continental Holdings sem hafa lækkað um 0,68%.

Gengi bréfa Norwegian Air Shuttle hafa einnig lækkað í morgun, eða um 6,23%, en Viðskiptablaðið sagði frá því um helgina að vel hafi gengið í hlutafjárútboði félagsins með meira en tvöfalt meiri eftirspurn eftir bréfum félagsins en voru í boði. Í desember tilkynnti Boeing um að pantanir væru fyrir um 5 þúsund vélum af þessari gerð að því er MarketWatch segir frá.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim