Gengi bréfa Southwest Airlines , American Airlines og United Continental Holdings hafa öll lækkað á eftirmarkaði, sem og Icelandair, Norwegian og flugvélaframleiðandans Boeing, í kjölfar þess að önnur Boeing 737 Max 8 flugvélin hrapaði skömmu eftir flugtak á sex mánaða tímabili.

Einnig gætu fréttir um að Indigo Partners hyggist setja hátt í 11 milljarða króna í Wow air haft þar áhrif. Hefur slysið á flugvél Ethopian Airlines í gær þar sem 157 farþegar létust, en um borð voru ríkisborgarar yfir 30 landa, þar af fimm frá Norðurlöndunum , haft áhrif á hlutabréfaverð fjölmargra flugfélaga sem eiga þessa gerð flugvéla.

Þannig hefur gengi bréfa Icelandair lækkað um 8,82% í kauphöllinni í morgun, þegar þetta er ritað. Félagið á þrjár Boeing 737 Max 8 vélar og stefnir á að fá sex vélar til viðbótar, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er félagið búið að ganga frá fjármögnun allra vélanna.

Hefur gengi bréfa Boeing flugvélaframleiðandans nú lækkað um 10,61%, í kjölfar frétta um að Boeing 737 Max 8 vélar flugfélaga í Eþíópíu, Indónesíu þar sem 189 létust þegar vél Indonesia Lion Air hrapaði í hafið, og Kína hafi verið kyrrsettar.

Jens Þórðarson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair hefur sagt að félagið muni fylgjast með gangi mála í gegnum framleiðandann, Boeing, auk þess að vera í sambandi við evrópsk og íslensk flugmálayfirvöld. „Það er ekki ástæða til þess að stoppa flug á þessum tímapunkti miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir,“ segir Jens í samtali við RÚV .

Boeing 737 er mest selda flugvél í heimi, en Max 8 útgáfan er sparneytnari en fyrri vélar og ætluð sem svar við vélum helsta keppinautarins Airbus. Hefur félagið nú afhent um 350 Max 8 vélar, m.a. til Soutwhest Airlines en gengi bréfa félagsins hafa lækkað um 2,34% í dag, til American Airlines sem hafa lækkað um 0,25% og til United Continental Holdings sem hafa lækkað um 0,68%.

Gengi bréfa Norwegian Air Shuttle hafa einnig lækkað í morgun, eða um 6,23%, en Viðskiptablaðið sagði frá því um helgina að vel hafi gengið í hlutafjárútboði félagsins með meira en tvöfalt meiri eftirspurn eftir bréfum félagsins en voru í boði. Í desember tilkynnti Boeing um að pantanir væru fyrir um 5 þúsund vélum af þessari gerð að því er MarketWatch segir frá.