Gengi hlutabréfa í bandarískum flugfélögum hefur hækkað umtalsvert á síðustu misserum og hefur Berkshire Hathaway verið að bæta við stöður sínar í félögunum. Þetta kemur fram á Bloomberg fréttaveitunni.

Nýjustu kaupin hafa verið í Delta Air Lines Inc.,
United Continental Holdings Inc., American Airlines Group Inc. og Southwest Airlines Co.

Þrátt fyrir mikla samkeppni í greininni, hefur lágt olíuverð skilað góðri afkomu og hafa sex stærstu flugfélög Bandaríkjanna nú hagnast sex ár í röð. Aukin hagræðing og skilvirkni hefur einnig skilað góðum rekstrarniðurstöðum.

Warren Buffett virðist því veðja á að fyrirtækin muni halda áfram á sömu braut og að það muni skila sér til fjárfesta.