Flugmálafélag Íslands er afar óánægt með framgöngu Isavia og segir fyrirtækið hafa tekið ákvörðun um að hefta verulega flugsamgöngur til Vestmannaeyja um verslunarmannahelgina. Almannaflug verður verulega takmarkað, eða með öllu óheimilt, þegar áætlunarflug stendur yfir til vallarins. Segir í tilkynningunni að ákvörðunin hafi verið tekin án nokkurs samráðs við almannaflugið.

„Höftin eiga sér fá ef nokkur fordæmi í íslenskri flugsögu,“ segir í tilkynningunni.

Samkvæmt hinum nýju reglum geta fjórar flugvélar flogið til Eyja á hverjum hálftíma og telur flugmálafélagið að það skipulag geti með engum hætti annað þeirri umferð sem að öllu jöfnu fer um flugvöllinn þessa helgi. Mótmælir flugmálafélagið þeim málflutningi að breytingin hafi verið gerð í nafni flugöryggis, enda sé ekkert sem hindrar að þessar fjórar vélar komi að vellinum á sömu mínútunni.

„Það er aukinheldur líklegt að sú verði raunin því vélar verða að bíða í landi þangað til þeirra hálftími kemur og fara þá allir af stað. Komi vélarnar allar fyrstu mínútuna mun völlurinn standa auður næsta hálftímann sem jafngildir því að völlurinn sé þá lokaður hér um bil alla helgina. Á hverjum klukkutíma er völlurinn nýttur í 2 mínútur. Flugmálafélagið telur að ekki þurfi að hafa frekari orð um hina fordæmalausu ákvörðun Isavia,“ segir í tilkynningunni.

Flugmálafélagið lýsir yfir miklum vonbrigðum með starfshætti Isavia og sakar flugmálayfirvöld um samráðs- og skilningaleysi sem á sér ekkert fordæmi. Segir í tilkynningunni að hér sé hindrað flug með áður óþekktum hætti og sé það dapur vitnisburður um stefnu Isavia gagnvart flugsamgöngum almennings í landinu.