Flugmenn þýska flugfélagsins Lufthansa hafa tilkynnt að þeir muni hefja verkfallsaðgerðir á morgun vegna deilu um launakjör. BBC News greinir frá þessu.

Deilan snýst um eftirlaunakjör flugmannanna auk þess sem þeir hafa andmælt áformum félagsins um að auka við lággjaldastarfsemi sína þar sem það muni hafa í för með sér lægri launaútgreiðslur til þeirra.

Eftirlaunadeilan snýst hins vegar um fyrirætlanir flugfélagsins um að afnema eftirlaunaáætlun sem gerir flugmönnunum kleift að fara á eftirlaun 55 ára gamlir og fá 60% launa sinna greidd út þar til þeir ná 65 ára aldri.

Verkfallið mun helst bitna á stuttum og meðallöngum flugleiðum og mun hver lota fyrst um sinn vara í 24 klukkustundir. Mikið var um verkföll hjá starfsmönnum flugfélagsins á síðasta ári, en áætlað er að þau hafi kostað það um 232 milljónir evra.