Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur vísað kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins og Flugfélag Íslands til ríkissáttasemjara. Greint er frá þessu á vef embættisins .

„Við höfum átt einhverja fjóra fundi og mönnum finnst þetta ekkert ganga. Þess vegna vísum við þessu til ríkissáttasemjara, eins og hefðbundið er að gera,“ segir Hafsteinn Pálsson, stjórnarformaður FÍA, í samtali við Viðskiptablaðið. Hann vill hins vegar ekkert gefa upp um kröfur félagsins.

Deila við Bláfugl stendur enn yfir

FÍA vísaði einnig kjaradeilu við Bláfugl til ríkissáttasemjara þann 16. febrúar síðastliðinn, en þar liggur engin niðurstaða fyrir að sögn Hafsteins.

„Sú deila snýst um að þeir eru að ráða inn verktaka. Við viljum auðvitað tryggja okkar fólki vinnu, en þeir vilja forgangsréttarákvæði FÍA þar um í burtu. Við getum auðvitað ekki sætt okkur við það,“ segir Hafsteinn.