Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir launakröfur Félags flugvirkja óraunhæfar. Hann segir félagið ítrekað misbeita verkfallsvopninu. SA ætlar ekki að hvika í deilunni við flugvirkja. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV .

Meðalheildarlaun flugvirkja hjá Icelandair eru 826 þúsund krónur. Flugvirkjar eru hæst launaða stétt iðnaðarmanna á Íslandi samkvæmt SA. Félag flugvirkja fer fram á 20% launahækkun samkvæmt mati SA.

Fundi Flugvirkjafélags Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Icelandair sem hófst klukkan 13:00 í gær lauk í nótt klukkan 02:30 án árangurs. Hófst verkfall flugvirkja hjá Icelandair því klukkan sex í morgun og hefur talsverð röskun orðið á flugáætlun flugfélagsins vegna verkfallsins.

Halldór segir að samninganefnd SA og Icelandair hafi reynt sitt ítrasta til að ná samkomulagi við Félag flugvirkja, svo sem með því að bjóða ýmsar útfærslur á kjarasamningi.

„Flugvirkjafélagið hefur á sama tíma ekki dregið úr óraunhæfum launakröfum sínum, eins og ég hef kallað það, og því er staða viðræðna þar sem við erum stödd núna. Verkfall flugvirkja er því miður staðreynd. Og það þýðir að almannahagsmunum er fórnað í þágu sérhagsmuna lítils og vel skipulagðs hóps sem ítrekar misbeitir verkfallsvopninu. Við megum ekki gleyma því að þeir hafa boðað verkfall á um það bil 18 mánaða fresti á undanförnum árum," segir Halldór, sem segir allt tal um launaleiðréttingu flugvirkja innistæðulaust.

Í frétt Vísis segist Halldór reikna með að deiluaðilar fundi í dag.