*

mánudagur, 25. mars 2019
Erlent 16. apríl 2018 19:07

Flugvöllurinn sem særði stolt Þjóðverja

Endanleg dagsetning komin á að nýr flugvöllur, sem tafist hefur sex sinnum og farið tvöfalt fram úr áætlun, komist í gagnið.

Ritstjórn
epa

Nýr flugvöllur við Berlín, sem farið hefur tvöfalt fram úr kostnaðaráætlunum að byggja og tafist ítrekað, er nú sagður eiga að komast í gagnið í október 2020. Flugvöllurinn ber nafnið Berlin Brandenburg Airport, sem er sagt vera til heiðurs fyrrum kanslara Þýskalands, Willy Brandt. Upphaflega átti hann að koma í stað tveggja flugvalla borgarinnar, hins nærliggjandi Schönenfeld flugvallar sem og Tegel, en nú er ljóst að hann er of lítill til þess og kemur hann því einungis í stað Tegel vallar.

Afhendingu flugvallarins hefur nú þegar verið frestað sex sinnum, svo margir líta á nýja áætlun um verklok með efasemdaraugum. Hefur bygging flugvallarins sem stefnir í að kosta 5,3 milljarða evra, eða sem samsvarar 648 milljörðum íslenskra króna, haft áhrif á stolt og sjálfsmynd Þjóðverja sem löngum hafa verið álitnir í fremstu röð verkfræðiþekkingar og getu.

Segir betra að rífa og byggja nýjan

Spáir til að mynda háttsettur stjórnandi hjá Lufthansa að rífa þyrfti flugvöllinn og byggja hann aftur til að hann verði nothæfur, enda hafa komið fram ýmis vandamál í byggingarferlinu. Hafist var handa við að byggja flugvöllinn í september 2006 og átti honum að vera lokið 2011 fyrir 2,5 milljarða evra, svo kostnaðurinn hefur að minnsta kosti tvöfaldast.

Tafirnar og kostnaðurinn er sagður samkvæmt frétt FT um málið mikið til kominn vegna sífellt íþyngjandi reglugerða en fleiri stór byggingarverkefni hafa tafist síðustu ár í Þýskalandi. Má þar nefna nýja tónlistarhöll Hamborgar, sem nú er áætlað að kosti um 789 milljónir evra, sem er meira en þrefalt fram yfir kostnaðaráætlun.

Byggingareglugerðir fjórfaldast á tveim áratugum

Engelbert Lütke-Daldrup yfirmaður rekstrarfélags flugvallarins segir að nýja dagsetningin geri ráð fyrir öllum mögulegum töfum en hann tekur undir þá sem gagnrýna reglugerðarfarganið. „Við höfum fjórfaldað byggingarreglugerðirnar á síðustu 20 árum,“ sagði hann. „Það eru varla nokkrir verkfræðingar eða aðrir sérfræðingar sem þekkja og skilja þær allar.“

Flugvöllurinn er byggður til að höndla 33 milljón farþega, sem er nú talið allt of lítið, eða jafnmikið og flugvellirnir tveir sem nú eru starfandi við Berlín eru að sligast undir. Segir Lütke-Daldrup að nú sé stefnt að því að byggja við flugvöllinn á árabilinu 2020 til 2025.