Bandaríski bílarisinn General Motors hefur nú tilkynnt að hann muni formlega hætta allri starfsemi í Venesúela. Þetta kemur fram á vef CNN Money.

18 Apríl fjölluðu fjölmiðlar vestanhafs um meinta ríkisvæðingu á verksmiðjum GM í Venesúela. Líklega hefur sú yfirtaka gengið eftir, en þó ber að nefna að ekki hefur verið framleiddur bíll í umræddum verksmiðjum í heilt ár sökum skorts á innfluttum bílapörtum.

Samt sem áður hafa alls 2700 manns verið á launaskrá félagsins, en þeim var sagt upp og greitt um leið og ríkið réðist inn í verksmiðjurnar í Apríl.

Yfirvöld í Venesúela hafa reyndar þvertekið fyrir það að um þjóðnýtingu sé að ræða. Einnig var reynt að skylda GM til þess að halda öllum 2700 starfsmönnunum í vinnu, en bílaframleiðandinn gaf lítið fyrir skipanir stjórnmálamannanna.

Afskriftir vegna umræddrar lokunnar munu samkvæmt CNN nema um 100 milljónum dala. Þá hafa stjórnendur GM einnig lýst yfir áhuga á að snúa aftur til baka, ef aðstæður í landinu breytast. Þó er erfitt að ímynda sér að þannig aðstæður skapist í bráð.