Flugupplifunarsýningin FlyOver Iceland, sem Viðskipablaðið fjallaði nýlega um, mun opna mánudaginn 1.júlí 2019. Miðasala hefst í dag, 14.febrúar. Frá þessu greinir fyrirtækið í fréttatilkynningu.

FlyOver Iceland er einstök háloftaheimsókn þar sem gestum er boðið í sýndarflugferð yfir stórbrotna náttúru Íslands. Notast er við nýjustu tækni í kvikmyndagerð til sýna gestum náttúruperlur landsins frá sjónarhorni sem fæstir fá tækifæri til að upplifa um ævina. Sérsmíðuð sæti lyftast og hreyfast með myndinni sem gefur áhorfandanum þá tilfinningu að hann svífi yfir landið. Auk flugsins eru tvær minni sýningar í húsinu sem gera menningu og sögu Íslands hátt undir höfði.

FlyOver Iceland byggingin er á lokametrunum í byggingu á Fiskislóð 43 á Granda í Reykjavík.

„Þetta hefur verið ótrúleg reynsla fyrir okkur, að sjá FlyOver Iceland þróast frá hugmynd að endanlegri vöru og upplifun" segir Agnes Gunnarsdóttir framkvæmdarstjóri FlyOver Iceland. „Við erum að byggja á frábærum stað á Granda, hverfi sem er í hraðri uppbyggingu um þessar mundir og aðeins steinsnar frá miðbænum. Framleiðsluteymið er afar skapandi og við getum ekki beðið eftir að opna dyrnar og sýna hina einstöku sögu og náttúru landsins með augum fuglsins."

FlyOver Iceland byggingin, sem mun verða stórt kennileiti á Grandanum, er hönnuð af Páli Hjaltasyni hjá Plús Arkitektar. Helsta einkenni hússins er upplýstur turn sem mun hýsa sýninguna sjálfa. Í húsinu verður einnig verslun með sérvaldar íslenskar vörur og kaffihús.

FlyOver Iceland mun verða hafa um 45 manns í vinnu á háannatíma.

Flugsýningin FlyOver Iceland fyrir alla fjölskylduna

Flugsýningin notar nýjustu sýningartækni sem völ er á. Sætin hreyfast á sex vegu meðfram myndinni sem er sýnd á 20 m kúptum skjá. Vindur, hljóð og lykt virkja skilningarvitin og gera upplifunina ógleymanlega. Sýningin er hugsuð fyrir alla aldurshópa, frá 4 ára og uppúr.

Þrjár sýningar í einni

Áður en gestirnir fara í aðalflugsýninguna eru þeir leiddir í gegnum tvær forsýningar. Þessar styttri upplifanir fara með gestinn í ferð um tíma, náttúru og ferðalag manna yfir úfið Atlantshafið. Sýningarnar tvær eru hannaðar af hinu vinsæla margmiðlunarfyrirtæki Moment Factory og munu bæði skapa eftirvæntingu og efla heildarupplifun gestanna.

Upptökur FlyOver Iceland

FlyOver Iceland myndin var tekin yfir sex mánaða tímabil árið 2018. Flogið er yfir alla landshluta í mismunandi árstíðum til að fanga fjölbreytileika Íslands sem allra best. Hið margverðlaunaða framleiðslufyrirtæki Sherpas Cinema stýrði upptökum ásamt stóru teymi íslenskra og erlendra sérfræðinga úr ferðaþjónustu, kvikmyndaframleiðslu og þyrluflugi svo fátt eitt sé nefnt. Skyggnast má bakvið tjöldin í myndbandi sem fyrirtækið gaf nýlega út.