Í nýjum lögum um fasteignalán til neytenda, sem koma til með að taka gildi 1. apríl næstkomandi, verður Fjármálaeftirlitinu heimilt, að fengnum tilmælum fjármálastöðugleikaráðs, að ákveða hámark veðsetningarhlutfalls fasteignalána sem getur numið frá 60% til 90%. Í svörum frá fjármálaráðuneytinu, sem stendur að lagasetningunni, segir að markmiðið með heimildinni sé að auka viðnámsþrótt lántakenda og lánveitenda gegn áföllum vegna óhagstæðrar þróunar á fasteignamarkaði og koma í veg fyrir að stóraukið aðgengi að lánsfé leiði til bólumyndunar á fasteignamarkaði. Ákvæðið er nýmæli í íslenskum lögum en auk þess hefur hingað til ekki verið til staðar lagaákvæði um leyfilegt hámarks veðsetningarhlutfall ef frá er talið hámark á veðsetningu lána sem Íbúðalánasjóður veitir, en það stendur nú í 80%.

Í svörum fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn um ástæðuna að baki lagabreytingunni segir að notkun stjórntækja þjóðhagsvarúðar í þeim tilgangi að draga úr kerfisáhættu og líkum á áfalli í fjármálakerfinu hafi rutt sér til rúms í æ ríkari mæli undanfarin ár. „Þessum stjórntækjum er mörgum hverjum ætlað að draga úr bólumyndun á eignamörkuðum og framboði á lánsfé og þar með getu aðila til þess að skuldsetja sig. Fasteignamarkaðurinn hefur fengið sérstaka athygli í þessu samhengi enda er íbúðarhúsnæði yfirleitt stærsta eign fólks og skuldsetning vegna þess vegur þungt í efnahagsreikningi heimila. Breytingar á fasteignamarkaði hafa því afgerandi áhrif á afkomu og eignastöðu heimila sem aftur getur haft áhrif á raunhagkerfið og aðra þætti fjármálakerfisins.“

Kreppur algengar í kjölfar bólumyndunar á fasteignamarkaði

Talsmaður ráðuneytisins bendir á að fjármálaáföll eða kreppur hafa gjarnan komið í kjölfar bólumyndunar á fasteignamarkaði sem hefur átt uppsprettu í mikilli aukningu á framboði lánsfjár. Fjármálaáföll og kreppur sem eiga upptök sín í fasteignaverðbólu og aukinni skuldsetningu heimila séu gjarnan kostnaðarsamari, lengri og alvarlegri en áföll sem orsakast af öðrum þáttum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.