Í hádeginu fór fram fundur efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis með Fjármálaeftirlitinu, en þar kom meðal annars fram að FME hafi ríkar heimildir til þess að meta hverjir væru eigendur og endanlegir fjárfestar af eignarhlutum í Arion banka, að sögn Lilju Alfreðsdóttur, nefndarmeðlimi og þingmanni Framsóknarflokksins. Fundurinn var haldinn að beiðni Lilju.

Lilja kvaðst hafa spurt FME nokkurra spurninga en þar á meðal þess hvaða heimildir FME hefði til að kanna hverjir eigendur af eignarhlutunum í Arion banka væru. „Að sökum þess að þetta er í mörgum lögsögum þá eru þessir aðilar eftirlitsskildir í Bandaríkjunum, Bretlandi og Lúxemborg. Þeir svöruðu því að þeir hafa ríkar heimildir og þeir væru byrjaðir að undirbúa það að skoða þetta, vegna þessir fjárfestar höfðu gefið það til kynna að þeir hygðust ætla að vera virkir eigendur,“ segir Lilja eftir fundinn.

„Í öðru lagi spurði ég að því hvort að þeir myndu skoða fjármögnunina. Hvernig eru kaupin fjármögnuð, með eigin fé eða með lánsfé? Eru þau fjármögnuð til langs tíma eða skamms tíma? Og varðandi mögulega innlausn. Af því að þetta eru sjóðir, en ekki bankar að kaupa í öðrum banka, er ekki fjármögnun örugglega trygg og er hún örugglega ekki bara til skamms tíma? Athugun á þessu myndi hefjast þegar þessi formlega beiðni myndi koma fram um virkan eignarhlut, að sögn FME,“ segir Lilja.

Einnig spurði Lilja út í það hvort að Goldman Sachs væri raunverulegur eigandi að bankanum, en Fjármálaeftirlitið svaraði því að þau gætu ekki svarað þvi.

Einnig kom fram í svörum FME að þessir aðilar hafi skuldbundið sig til að takmarka áhrif sín innan bankans á meðan þetta tímabundna ástand varir. Lilja benti jafnframt á að Fjármálaeftirlitið hafi verið í samskiptum við sjóðina í einhvern tíma. „Formleg bréfaskipti hafa átt sér stað,“ segir Lilja.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME, sagði að kaupin á 9,99% hlut hafi ekki verið tilviljun og að þau hafi sýnt fram á að sjóðirnir hafi ekki áhuga á að gerast virkir eigendur eins og sakir stæðu núna. Hins vegar hefur FME ástæðu til að ætla að sjóðirnir stefni að því að gerast virkir eigendur í Arion banka. Áður hefur komið fram að þrír fjárfestingasjóðir sem stóðu fyrir kaupum á bréfum Arion banka, stefni að því að fá leyfi Fjármálaeftirlitsins að eiga yfir 10% hlut í bankanum, að sögn lögmanns sjóðanna þriggja.

„Þetta voru fínar umræður og fínn fundur fyrir alla aðila,“ segir Lilja. „Ég held að þetta sé gott fyrir umræðuna, þetta var málefnalegt en að þær áhyggjur sem fólk hefur komu berlega í ljós,“ tók hún fram að lokum.