Fjármálaeftirlitið (FME) hefur gert athugasemd við að skrifleg stefna um meðhöndlun kvartana væri ekki til staðar hjá Sparisjóði Suður-Þingeyinga og hefur krafið hann úrbóta fyrir 15. desember 2018.

Í tilkynningu á vef FME kemur fram a FME hafi kannað hvort sparisjóðurinn hafði sett sér skriflega stefnu um meðhöndlun kvartana og hvort stefnan væri að finna á vefsíðu sparisjóðsins.

Starfsmenn FME könnuðu verkferla við meðhöndlun kvartana, ásamt upplýsingum um hvar sparisjóðurinn birti eða hafi aðgengilegar upplýsingar um réttarúrræði fyrir viðskiptavini sína og hvernig sparisjóðurinn ætli sér að tryggja reglubundið eftirlit með meðhöndlun kvartana.

Fara átti yfir úrlausnarferli fyrstu fimm kvartana í kerfi sparisjóðsins á árinu 2018 en engar kvartanir bárust eða voru skráðar hjá sjóðnum.

Gerður Sigtryggsdóttir, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga sagði við Viðskiptablaðið í maí að það væri kostnaðarsamt fyrir sparisjóðinn að fylgja öllum kröfum eftirlitsaðila. „Það er gífurlegur kostnaður fólginn í því að uppfylla allar reglur sem okkur eru settar. En það hefur gengið hingað til og við ætlum að láta það ganga áfram.“

Þá sé sparisjóðirnir séu sjálfseignarstofnun sem hafi fleiri markmið en að skila hámarkshagnaði. „Þannig að þetta er mjög erfitt fyrir okkur og nokkurn veginn eina leiðin sem við höfum er að hámarka hagnaðinn eða fara í stofnfjáraukningu,” sagði Gerður, en Sparisjóður Suður-Þingeyinga hagnaðist um 52 milljónir króna á síðasta ári.