Vegna rannsóknar Fjármálaeftirlitsins á meintum brotum á lögum um verðbréfaviðskipti hefur yfirmaður hjá Icelandair verið sendur í leyfi frá störfum þar til rannsókn lýkur. Fékk félagið upplýsingar um það í maí síðastliðnum að starfsmaður þess hefði stöðu grunaðs í rannsókninni, og var viðkomandi þá þegar sendur í leyfi frá störfum sínum. Þetta kemur fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins.

Rannsóknin beinist að viðskiptum með bréf í félaginu í aðdraganda þess að félagið birti afkomuviðvörun 1. febrúar síðastliðinn þar sem spá um afkomu félagsins á þessu ári var lækkuð um nálega 30%.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma komu fréttirnar mörkuðum á óvart og lækkaði hlutbréfaverð um 24% á einum degi, fór úr 22,1 krónu niður í 16,8 krónur hver hlutur, og þurrkuðust 27 milljarðar af markaðsvirði félagsins.

Verð Icelandair var hvað hæst í apríl árið 2016 er það var metið á um 195 milljarða, en eftir tilkynninguna, níu mánuðum seinna hafði virði þess lækkað um samanlagt 110 milljarða.