Fjármálaeftirlitið hefur gert samning við alþjóðlegan matsaðila um gagngert endurmat á eignum og skuldum nýju bankanna. Endurmatinu skal lokið í lok janúar 2009.

Í frétt á heimasíðu FME kemur fram að eftirlitið hefur ráðið hið virta alþjóðlega fjármálráðgjafarfyrirtæki, Oliver Wyman, til þess að hafa umsjón með og annast þetta endurmat. Aðferðunum, sem notaðar verða við matið, er ætlað að endurspegla þau verðmæti sem til langs tíma litið felast í eignum nýju bankanna, en ekki það verð sem fyrir þær fengist við þvingaða sölu við erfiðar markaðsaðstæður. Lánardrottnum bankanna verður gefinn kostur á að kynna sér áformaðar matsaðferðir og koma með ábendingar varðandi þær meðan þær eru enn á mótunarstigi. Aðferðirnar verða fullmótaðar í desember 2008.

FME hefur einnig samið við Oliver Wyman um að gera samskonar mat á gömlu bönkunum. Tilgangur þessa mats er aðeins að setja viðmiðunarramma fyrir starf skilanefndanna fyrir kröfuhafa. Skilanefndir gömlu bankanna hafa ráðið sér alþjóðlega ráðgjafa til þess að skipuleggja samskipti við kröfuhafa segir í frétt FME.