*

mánudagur, 25. mars 2019
Innlent 26. febrúar 2016 11:52

FME sektar Almenna lífeyrissjóðinn

Fjármálaeftirlitið sektar Almenna lífeyrissjóðinn fyrir að eiga viðskipti á sama tíma og hann bjó yfir innherjaupplýsingum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur lagt stjórnvaldssekt á Almenna lífeyrissjóðinn sem nemur 18 milljónum króna vegna brots á ákvæðum um innherjasvik í lögum um verðbréfaviðskipti. Brotið kemur til vegna viðskipta sjóðsins í mars 2015 en þá keypti hann í skuldabréfaflokki, útgefnum af HS Veitum hf., á sama tíma og lífeyrissjóðurinn bjó yfir innherjaupplýsingum sem vörðuðu skuldabréfaflokkinn.

Ákvæði um innherjasvik í lögum um verðbréfaviðskipti er svohljóðandi:

  Innherja er óheimilt að:

  1. afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum,
  2. láta þriðja aðila innherjaupplýsingar í té, nema það sé gert í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur þess sem upplýsingarnar veitir,
  3. ráðleggja þriðja aðila á grundvelli innherjaupplýsinga að afla fjármálagerninga eða ráðstafa þeim eða hvetja að öðru leyti til viðskipta með fjármálagerningana.

Munurinn nam 5 milljónum króna

Málsatvik voru á þann hátt að sjóðnum hafði verið boðin skuldabréf til kaups í skuldabréfaflokknum í febrúar 2015 af miðlara innan tiltekins banka en ekkert varð úr þeim viðskiptum. Í byrjun mars var sjóðnum boðið að taka þátt í lokuðu skuldabréfaútboði nýs skuldabréfaflokks sem HS veitur höfðu í hyggju að gefa út. Í viðræðunum um nýja skuldabréfaflokkinn fékk Almenni lífeyrissjóðurinn ýmsar upplýsingar um nýja skuldabréfaflokkinn, m.a. að hann ætti að vera algerlega samhljóða eldri flokki frá sama útgefanda og að til stæði að sameina flokkana. Þá var frá upphafi gefið út að nýji flokkurinn yrði seldur með ávöxtunarkröfunni 3,4%.

Sjóðurinn lýsti því yfir að hann hefði ekki áhuga á því að kaupa á þessari ávöxtunarkröfu. Sama dag hafði starfsmaður sjóðsins samband við miðlarann í bankanum og spurði hvort hann væri enn með skuldabréf til sölu. Miðlarinn kom þeim upplýsingum til skila að seljandi hefði áhuga á að selja í flokknum á ávöxtunarkröfunni 3,6%. Sjóðurinn tók þessu tilboði og keypti sem nam 300 milljónum króna á ávöxtunarkröfunni 3,6%.

 Var um að ræða fyrstu tilkynntu viðskiptin með skuldabréfaflokkinn á eftirmarkaði. Mismunur þess að kaupa bréfin 10. mars 2015 á ávöxtunarkröfunni 3,60% í stað 3,40% nam tæplega 5 milljónum króna.