Fjármálaeftirlitið lætur reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja nú ná til greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja. Fyrirtæki sem sýsla með rafeyri svo sem vildarpunkta hjá flugfélögum þurfa því nú að lúta sömu reglum og önnur fjármálafyrirtæki. Það sama á við um greiðslustofnanir samkvæmt nýjum reglum Fjármálaeftirlitsins .

Hefur stofnunin jafnframt breytt nafni reglnanna, og heita þær því núna reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja, en áður var einungis minnst á fjármálafyrirtækin. Voru nýju reglurnar samþykktar af stjórn Fjármálaeftirlitsins 17. október síðastliðinn og birtar á vef Stjórnartíðinda 15. nóvember.

Með hinum nýju reglum er gildissvið eldri reglna útvíkkað þannig að þær nái til greiðslustofnana og rafeyrisfyrirtækja, en stofnunin segir að skylda liggi á Fjármálaeftirlitinu að setja reglur um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti þessara félaga.
Jafnframt segir stofnunin að smávægileg breyting hafi verið gerð á 9. grein um upphafstíma varðveislu kvartana.

Uppfært 11:35: Fjármálaeftirlitið skilgreinir Bitcoin og aðrar sambærilegar stafrænar myntir ekki sem rafeyri, heldur á stofnunin, og þar með hinar nýju reglur, við um rafrænar eignir eins og til dæmis vildarpunkta. Fréttin hefur því verið uppfærð í samræmi við þetta.