Fjármálaeftirlitið hefur falist eftir upplýsingum frá viðskiptabönkunum hér á landi um það hvort þeir bjóði viðskiptavinum sínum upp á aðstoð við að koma fjármunum sínum fyrir í aflandsfélögum. Fréttablaðið greinir frá.

Í svari FME við spurningum Fréttablaðsins segist stofnunin ekki hafa neina ástæðu til að telja að innlendar fjármálastofnanir hafi verið að bjóða upp á slíka þjónustu, þó hún geti ekki upplýst um einstaka eftirlitsskylda aðila.

Markaður Fréttablaðsins sendi stóru viðskiptabönkunum þremur fyrirspurn vegna aflandsmála og í svörum þeirra kom fram að frá því að þeir voru stofnaðir haustið 2008 hafi þeir ekki aðstoðað einstaklinga eða lögaðila við að stofna reikninga eða félög á aflandssvæðum.

Fullyrt er að tengsl yfir 600 íslenskra aðila við aflandsfélög komi fram í hinum gríðarlega umfangsmikla gagnaleka frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama.