Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að stöðva tímabundið viðskipti á skuldabréfamarkaði með skuldabréf útgefnum af Íbúðalánasjóði, Ríkissjóði, Landsbréfum og Íslandssjóðum. Þá hafa viðskipti með hlutabréf í TM, Sjóvá og VÍS verið stöðvuð. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þar segir að áætlað sé að opnað verði fyrir viðskipti með 10 mínútna uppboði kl. 14 á íslenskum tíma. Samfelld viðskipti muni því hefjast kl. 14:10.

Á vef Fjármálaeftirlitsins kemur fram að ákvörðunin sé tekin til að vernda jafnræði fjárfesta, og viðskiptin verði opnuð aftur í kjölfar blaðamannafundar forsætisráðherra og fjármálaráðherra þar sem kynnt verður um afnám fjármagnshafta.

Ástæðan fyrir því að aðeins hafa verið stöðvuð viðskipti með bréf tryggingafélaganna á hlutabréfamarkaði er vegna mikilla eigna þeirra á skuldabréfum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.