Þann 24. mars síðastliðinn sendi Benedikt Jóhannesson Fjármála- og efnahagsráðherra bréf til Fjármálaeftirlitsins með ellefu spurningum sem tengdust nýjum eigendum Arion banka.

Markmið bréfsins og spurninganna var að auka gagnsæi og að bæta skilning á bæði sölunni og þeim afleiðingum sem hún gæti haft á íslenskan fjármálaheim.

Umrætt bréf og svör Fjármálaeftirlitsins hafa nú verið gerðar opinberar á heimasíðu Fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Enginn með virkan eignarhlut

Svör Fjármálaráðuneytisins eru nokkuð skýr, en tekið er sérstaklega fram að enginn hinna nýju hluthafa fari nú með virkan eignarhlut í Arion banka og því hefur ekki verið farið fram á mat á hæfi nýju eigendanna. Þó hafa þrír hinna nýju hluthafa upplýst FME um að þeir kunni að auka við hlut sinn í bankanum.

Komi til þess að umræddir aðilar auki við hlut sinn, mun FME leggja mat á hæfi þeirra aðila. Fyrir liggur að viðskipti sem leiða til 10% hlutar eða meira, geta ekki komið til framkvæmda fyrr en FME hefur metið þá aðila hæfa til að fara með virkan eignarhlut.

Allir kröfuhafar Kaupþings

Allir nýju hluthafarnir eða aðilar þeim tengdir voru á meðal kröfuhafa Kaupþings ehf. við gerð nauðasamnings félagsins og fara nú með hlut í Arion banka.

Umrædd félög eru skráð í Bretlandi, Írlandi og Lúxemborg, en sum þeirra eru svo í eigu bandarískra félaga.

Hinir nýju hluthafar í Arion hafa, eins og áður hefur komið fram, samið við Kaupskil ehf. um forkaupsrétt sem gerir þeim kleift að auka við hlut sinn í bankanum sem nemur samtals um allt að 21,9%

Hafa enn ekki lagt mat á kaupendur

Fjármálaeftirlitið vísar í flestum liðum í inngang svarbréfsins, þar sem fram kemur að FME hafi enn ekki lagt mat á hæfi nýrra hluthafa. Bréfið í heild sinni má finna hér.