Guðbjörg Edda Eggertsdóttir hefur gegnt forstjórastöðu Actavis á Íslandi frá september 2010. Hún er vel kunn lyfjageiranum en hún hefur starfað hjá fyrirtækinu og forvera þess í 30 ár. Actavis, sem er eitt stærsta fyrirtæki landsins, flytur höfuðstöðvar sínar til Zug í Sviss innan skamms. Guðbjörg segist þó ekki á förum enda verði fyrirtækið áfram íslenskt.

Guðbjörg hóf nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands 1971 og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Kaupmannahafnarháskóla 1976. Hún hóf starfsferilinn sem efnafræðikennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð með námi í HÍ. Að loknu námi í Kaupmannahöfn lá leiðin til Farmasíu hf. þar sem hún starfaði árin 1976-1980. Þá starfaði hún hjá Pharmaco hf. frá 1980-1982 og var síðan ráðin sem markaðsstjóri Delta hf. árið 1983. Þar vann hún til ársins 2002 og sinnti þar ýmsum störfum, m.a. sem aðstoðarforstjóri frá árinu 1999. Árið 2002 hófst sameining Delta hf. og Pharmaco hf. og heitir sameinað félag nú Actavis. Guðbjörg starfaði sem framkvæmdastjóri á markaðssviði Actavis Group frá 2002 og aðstoðarforstjóri samstæðunnar frá 2008 þar til hún tók við forstjórastöðu Actavis á Íslandi í september 2010.

Laxveiðar og vín

Áður fyrr var Guðbjörg mikið í félagsstörfum, fyrst og fremst fyrir Lyfjafræðingafélag Íslands þar sem hún var varaformaður í fjögur ár og formaður önnur fjögur ár. Aðspurð um áhugamál og félagsstörf segist Guðbjörg hafa haft lítinn tíma fyrir annað en fjölskyldu og vinnuna mörg undanfarin ár. Þó sé hún í stjórn Auðar Capital hf. og PrimaCare ehf. Meðal helstu áhugamála nefnir hún fjölskyldu sína, mat, vín, ferðalög, golf og laxveiðar. Guðbjörg er gift Eyjólfi Þ. Haraldssyni lækni og saman eiga þau tvo uppkomna syni.

Eftirminnilegt fimmtugsafmæli

Þann 13.janúar síðastliðinn varð Guðbjörg sextug og fagnaði hún stórafmælinu með hópi ættingja, vina og vinnufélaga. Fimmtugsafmæli Guðbjargar var einn eftirminnilegasti afmælisdagur hennar, þá hélt hún veislu heima fyrir og húsið fylltist af vinum og vandamönnum. Það sem upp úr stóð var að vinnufélagar hennar færðu henni að gjöf óperusöngvara með undirleik sem mætti óvænt í afmælisveisluna.

Um Guðbjörgu

»» 1971-1973 Stundaði nám í lyfjafræði við HÍ

»» 1972-1973 Efnafræðikennari í MH

»» 1973-1976 Lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Kaupmannahafnarháskóla

»» 1976-1980 Lyfjafræðingur hjá Farmasíu hf.

»» 1980-1982 Starfaði hjá Pharmaco hf.

»» 1983-2002 Starfaði hjá Delta hf., m.a. sem markaðsstjóri.

»» 1999-2002 Aðstoðarforstjóri Delta hf.

»» 2002-2008 Framkvæmdastjóri markaðssviðs Actavis hf.

»» 2008-2010 Aðstoðarforstjóri Actavis hf.

»» 2010- Forstjóri Actavis á Íslandi

Greinin birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.