Halldór Kristmannsson, viðskiptafræðingur, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri samskiptasviðs FL Group. Halldór verður hluti af framkvæmdastjórn félagsins og mun bera ábyrgð á öllum samskiptamálum FL Group, þ.á.m. samskiptum við fjárfesta, fjölmiðla, innri samskipti og ímyndaruppbyggingu félagsins. Þá mun hann einnig taka þátt í ýmsum sérverkefnum með forstjóra og aðstoðarforstjóra félagsins segir í tilkynningu.


Halldór hefur verið hluti af framkvæmdarstjórnarteymi Actavis í tæplega sex ár og sinnt ýmsum störfum innan félagsins. Lengst af hefur hann stýrt samskiptasviði þess, en deildin bar ábyrgð á fjárfesta- og fjölmiðlatengslum og mótun og innleiðingu á fyrirtækjaímynd Actavis, innan og utan félagsins, um allan heim. Halldór hefur jafnframt unnið að ýmsum öðrum verkefnum í starfi sínu hjá Actavis með stjórn og framkvæmdastjórn, s.s. yfirtökum og samþættingu nýrra félaga, fjármálastjórnun auk þess að hafa verið regluvörður félagsins í fimm ár. Áður var hann fjármálastjóri Ísafoldarprentsmiðju og framkvæmdastjóri Sindrabergs á Ísafirði.

,,Við bjóðum Halldór velkominn til starfa hjá FL Group. Hann hefur umfangsmikla reynslu á sviði samskipta- og ímyndarmála og er ráðning hans góð viðbót við öflugt stjórnendateymi okkar. Samhliða fyrirsjáanlegum vexti félagsins á næstu árum er markmið okkar að efla enn frekar samskipti okkar við fjárfesta og fjölmiðla, auk þess sem áhersla verður lögð á að félagið verði vel þekkt á alþjóðlegum vettvangi," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group í tilkynningu.