Velta í smásöluverslun jókst um 0,2% í ágúst síðastliðnum, samkvæmt nýbirtum upplýsingum bandaríska viðskiptaráðuneytisins. Þetta er minni vöxtur en gert var ráð fyrir en meðalspá hljóðaði upp á 0,5% veltuaukningu. Bloomberg-fréttaveitan segir þróunina endurspegla erfiðleikana í bandarísku efnahagslífi.

Bloomberg bendir á að vöxturinn hafi verið óvenju mikill í mánuðinum á undan og kunni það að hafa áhrif á tölurnar nú en bendir á að skattahækkanir upp á síðkastið, lítil kaupmáttaraukning landsmanna og veikur vinnumarkaður hafi skilað því að almenningur hafi haldið að sér höndum.