Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir hefur verið ráðin til Arev verðbréfa í nýtt starf sem fjárfestingarstjóri Arev N1 og hefur nú þegar hafið störf. Fjárfestingarsjóðurinn Arev N1 var stofnaður í apríl á þessu ári og sérhæfir sig í fjárfestingum á íslenskum neytendavörufyrirtækjum.  Þetta kemur fram í tilkynningu Arev.

Hrefna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur að undanförnu lagt stund á MS-nám í stjórnun og stefnumótun við Háskóla Íslands. Hrefna hefur mikla reynslu af fjármálamarkaðnum. Hún starfaði í nokkur ár hjá verðbréfafyrirtækinu Fjárvangi, um árabil hjá Kauphöll Íslands og gegndi þar síðast stöðu forstöðumanns skráningarsviðs.

N1 er byggður á grunni eignasafns sem Eignarhaldsfélagið Arev hefur byggt upp síðustu ár. Eignasafn sjóðsins samanstendur m.a af eftirtöldum fyrirtækjum: Áltak, Sól, Emmessís, Vínkaup, Yggdrasill og Sævar Karl og eru fleiri fjárfestingartækifæri í skoðun.