Ég byrjaði snemma að vinna og var eflaust ágætisverkmaður. Ég vann í Nóa í nokkur ár en hafði áður unnið í Feldinum, með kunningja mínum Karli Ágústssyni sem var svona maður sem kunni málin, fleiri en íslensku. Við fórum að spjalla um að gera eitthvað, og ofan á varð hvort við gætum ekki fundið karamelluvél. Hann fór að skrifa í allar áttir og við fundum eina,“ segir Helgi Vilhjálmsson framkvæmdastjóri GóuLinda sælgætisgerðarinnar í Ítarlegu viðtali í Viðskiptablaði vikunnar um upphafið að Góu ævintýrinu.

„Það er nú samt búið að taka rúm 40 ár að geta nokkurn veginn borgað reikningana á réttum tíma. Svona rekstur hirðir alltaf svo mikið til baka, það þarf alltaf að vera að kaupa vélar eða annað. Ég byrjaði á þriðju hæð í Súðavogi 18, með 120 fermetra, og þá sagði ég við sjálfan mig þegar ég sá þessa stórlaxa sem alltaf eru að veiða laxana, að ef ég ætti nú þessa 120 fermetra þá væri ég búinn að redda lífinu. Þetta var fyrir 50 árum, nú á ég 10 þúsund fermetra, en vantar enn þessa 120 fermetra upp á.“

Veltan dregist saman í uppsveiflunni

Velta sælgætisgerðarinnar Góa-Linda nam árið 2017 tæplega 1,2 milljörðum króna, sem var um 100 milljóna króna samdráttur frá árinu 2016. Hagnaður félagsins dróst einnig saman á milli áranna 2016 og 2017, eða úr 157,2 milljónum króna í tæplega 88,2 milljónir. Helgi segir að þvert á móti hafi verið uppsveifla í rekstrinum á árunum eftir hrun.

„Eftir hrunið þá var aukning hjá mér, það er svo skrýtið að þegar fólk getur ekki keypt dýru hlutina, þá fer það að veita sér að fara út að borða og jafnvel kaupa meira nammi. En svo þegar uppsveiflan kom aftur þá fer það kannski að borga 200 þúsund kall af íbúðinni, sem það var kannski áður að eyða í að lifa lífinu eins og menn kalla það.“

Í dag er rekstur veitingastaða orðinn töluvert stærri hluti starfsemi Helga, en dætur hans hafa mikið til tekið yfir þann hluta rekstrarins. Þannig námu tekjur KFC ehf. 2,9 milljörðum árið 2016, en þær jukust í 3,06 milljarða árið 2017. Hagnaðurinn dróst hins vegar saman á milli áranna, eða úr tæplega 191 milljón í 169,4 milljónir. Helgi segir frá því hvernig hann hitti á að flytja inn hið þekkta bandaríska vörumerki.

Fór á hverju ári til Bandaríkjanna

„Það kom þannig til að það var spáð illa fyrir iðnaðinum þegar við gengum í EFTA, við gætum bara gleymt þessu. Ég var alltaf dálítið hrifinn af Ameríku, nokkrir kunningjar mínir hafa eiginlega búið þar alla tíð og ég hef farið þangað á næstum því hverju ári í frí með minni fjölskyldu,“ segir Helgi sem finnst það rannsóknarefni af hverju íslenskur iðnaður sé að hverfa úr landinu.

„Sælgætisgerðunum hefur til dæmis fækkað, þegar ég byrjaði held ég að þær hafi verið 40, en nú eru bara fjórar eftir. Á sama tíma og spáð var reiðarslagi fyrir okkur í sælgætinu sá ég þetta merki, KFC, og önnur góð merki, en það varð ofan á að fá það. Á þessum tíma, 1980, var skyndibiti rándýr á Íslandi, menn höfðu ekkert efni á þessu. En ég hafði trú á því að hægt væri að byggja þetta upp, og menn svo sem vita allt ævintýrið í kringum það, það eru komin 38 ár.

Það hefur verið mjög gaman af þessari uppbyggingu, en þetta var líka bylting hjá kjúklingaframleiðendunum sjálfum. KFC kenndi þeim að búa til kjúklingabringurnar, en það var erfitt að koma þessu inn hjá þeim, ég varð að bíða í tvö ár eftir því að fá fyrsta skammtinn frá íslensku kjúklingaræktendunum. Ég held að maður hafi ekki gert sér grein fyrir framhaldinu, þvílíkt magn af bringum sem hafa verið seldar, ég held að kjúklingabændur hafi byrjað að græða loksins eftir þetta. Þetta er nefnilega ekki bara kjúklingur, þetta eru bringur, leggir og vængir og allt, og ég þakka KFC fyrir það að menn lærðu að skera þetta niður, ekki mér.“

Kaninn bað um Taco Bell

Helgi og fyrirtæki hans hafa síðan bætt við sig fleiri vörumerkjum frá Yum! Brands, eigendum bandarísku keðjunnar Kentucky Fried Chicken, sem er einnig með keðjurnar Pizza Hut, Taco Bell, sem er rekið hér með KFC, og WingStreet, en sú síðarnefnda hefur ekki komið hingað til lands.

„Það var nú óviljandi að við komum með Taco Bell hingað, en við byrjuðum með hann uppi á Keflavíkurflugvelli meðan herinn var þar. Kaninn bað um þetta fyrst við erum með sama umboðið, og þetta er svona náttúruleg viðbót við þetta allt saman. Stelpurnar mínar opnuðu svo 18. desember Pizza Hut númer tvö, í Hafnarfirði,“ segir Helgi en hann kom sjálfur ekki að rekstri Pizza Hut, sem er rekið í sérfélagi, fyrr en seinna.

„Þeir voru orðnir svolítið stórir, en þetta er erfiður bransi. Ég kaupi þetta af þeim því við erum að rembast við að hafa allt með, því þetta eru sömu eigendurnir úti.“ Spurður hvort hann hafi ekkert viljað fylgja eftir tískusveiflunni í átt til meiri hollustu þvertekur hann fyrir að vörurnar séu óhollar.

„Þetta er ekkert óhollusta, við verðum bara að passa að borða ekkert of mikið af þessu, við borðum bara of mikið af öllu, ég er einn af þeim líka og ber þess vitni. En ef þetta er svona óhollt ætti ég að vera steindauður og rúmlega það, en ég er að verða 77. Svo erum við með valmöguleika, eins og mjög gott salat með kjúklingabitum útí,“ bendir Helgi á, sem segir það aldrei hafa verið neitt mál að fá að selja vörur sælgætisgerðarinnar með á KFC stöðunum eins og vinsælt er hjá mörgum að grípa með.

„Þar kemurðu reyndar að óhollustunni, en þetta var bara sniðug hugmynd sem ég held að enginn hafi fundið að. Ég man ekki hverjum datt það í hug, ég ætla ekki að þakka mér allt, ég hef verið með mjög gott fólk í vinnu, sumt sem hefur verið hérna með mér í allt að 40 ár.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .