Þorsteinn Örn Guðmundsson hefur verið ráðinn forstjóri Northern Travel Holding hf. (NTH). Samtímis mun hann taka við stjórnarformennsku í Iceland Express og Sterling Airlines sem bæði eru í eigu NTH, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Northern Travel Holding er eignarhaldsfélag með megináherslu á flugfélög og annan ferðatengdan rekstur innan Skandinavíu og Evrópu. Markmið félagsins er að skapa og reka leiðandi fyrirtæki með sterka markaðsstöðu, þar sem sérstök áhersla er lögð á sveigjanlegt vöruframboð, hagkvæmni og flotta þjónustu.

Northern Travel Holding er í eigu Fons hf. (44%), FL Group hf. (34%) og Sund hf. (22%). Félagið var stofnað í janúar 2007 og er fjöldi starfsmanna 2.200. Flugvélafloti félaganna telur um 40 vélar og árlega flytja þau samtals rúmlega 7 milljónir farþega. Heildarvelta dóttur- og hlutdeildarfélaga NTH er um 100 milljarðar króna.

Fjárfestingar NTH eru:
? Sterling Airlines (100%) - Skandinavískt flugfélag.
? Iceland Express (100%) - Íslenskt flugfélag.
? Hekla Travel (100%) - Skandinavísk ferðaskrifstofa.
? Astreus (51%) - Breskt flugfélag.
? Ticket (29,26%) - Leiðandi ferðaskrifstofa í Svíþjóð

Þorsteinn Örn hóf störf hjá FL Group í september árið 2004 sem forstöðumaður stefnumótunar. Í ágúst 2005 tók hann við stöðu framkvæmdastjóra stefnumótunar og viðskiptaþróunar og starfaði síðan sem forstjóri FL Travel Group frá október 2005. Þorsteinn Örn hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs FL Group frá byrjun árs 2006.

Þorsteinn Örn lauk mastersprófi (M.Sc.) í byggingarverkfræði frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn (DTU) árið 1999. Áður starfaði hann sem stjórnunar- og rekstrarráðgjafi hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company í Skandinavíu og Singapore á árunum 1999 ? 2004.