Pete Osborne hefur í kjölfar skipulagsbreytinga verið ráðinn forstjóri yfir starfsemi Eimskips í Evrópu. Yfirtaka Eimskips á Innovate fyrr á árinu hefur kallað á þær breytingar að starfsemi Eimskips í Bretlandi og Evrópu verður sameinuð undir nýjum forstjóra, að því er fram kemur í tilkynningu.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips: ?Innovate hefur leiðandi stöðu í flutningalausnum og birgðastýringu á Bretlandi. Sú yfirgripsmikla þekking og sérhæfing sem Pete býr yfir ætlum við að nýta til frekari vaxtar í Evrópu .?

Pete Osborne er einn af stjórnendum Innovate og hefur hann víðtæka reynslu og þekkingu á sviði hitastýrðra flutninga og eignastýringu þ.m.t. fasteigna. Björn Einarsson sem sinnti starfi framkvæmdastjóra Evrópu og TVG kemur til með að einbeita sér að því að stýra TVG en félagið hefur vaxið mikið undanfarið ár
undir stjórn Björns. Björn Einarsson hefur verið framkvæmdastjóri TVG Zimsen frá ársbyrjun 2006. Í nóvember 2003 varð Björn framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs erlendrar starfsemi Samskipa með aðsetur í Rotterdam. Björn útskrifaðist sem stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1995.

Evrópusviðs Eimskips samanstendur af Innovate í Bretlandi, Daalimpex í Hollandi og skrifstofum Eimskips sem eru í átta löndum í Evrópu. Samtals rekur Eimskip um 30 vörugeymslur í Bretlandi og sex kæli- og frystigeymslur í Hollandi.

Starfsmenn Evrópusviðs Eimskips eru um 3.000.

Innovate er leiðandi á öllum sviðum flutninga í Bretlandi og er velta félagsins um 200 milljónir punda eða sem nemur um 24 milljörðum króna. Innovate gerir út um 1.200 flutningabíla og hitastýrða tengivagna. Geymslugeta félagsins er 450 þúsund tonn. Hjá Innovate starfa um 2.000 manns. Meðal helstu viðskiptavina Innovate eru: Bakkavör, Tesco, Somerfield, Sainsburys, Nestlé og Heinz.