Brent Sugden, forstjóri Versacold hefur í kjölfar skipulagsbreytinga verið ráðinn forstjóri yfir kæli- og frystigeymslusviði Eimskips í Ameríku. Bæði Versacold og Atlas Cold Storage, sem reka yfir 120 kæli- og frystigeymslur tilheyra þessu sviði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Reynir Gíslason sem gegnt hefur bæði stöðu forstjóra Eimskips í Ameríku frá júlí 2006 svo og forstjóra Atlas frá nóvember 2006 mun halda áfram sem forstjóri yfir annarri starfsemi Eimskips í Ameríku. Sú starfsemi tengist að mestu leyti skiparekstri félagsins í heimsálfunni en nýlega hóf Eimskip strandsiglingar á austurströnd Bandaríkjanna.

Brent Sugden hefur undanfarin 6 ár verið forstjóri Versacold og áralanga reynslu af rekstri kæli- og frystigeymslna. Brent hefur náð miklum árangri í Versacold og hefur verið farsæll stjórnandi í ört vaxandi fyrirtæki í hörðu samkeppnisumhverfi.

Eimskip hefur vaxið gríðarlega í Norður Ameríku með yfirtökum á undanförnu ári og því hefur Ameríkusviði félagsins verið skipt í tvö svið. Þessi skipting styrkir flutningaþjónustu Eimskip og tryggir enn betri þjónustu félagins á alþjóðavísu. Eimskip í Ameríku rekur um 120 kæli- og frystigeymslur og þar starfa um 8.500 manns á vegum félagins. Að auki starfrækir Eimskip áætlunarsiglingar á austurströnd Bandaríkjanna og stefnir félagið að auka þjónustuframboð sitt til muna á þessu markaðssvæði.

Reynir Gíslason gegndi tímabundið starfi forstjóra Atlas og hefur á því tímabili stýrt fyrirtækinu í gegnum miklar breytingar og stýrt aðgerðum til þess að auka hagræði rekstrarins. Nú þegar Eimskip hefur fest kaup á Versacold
liggur fyrir að samþætta rekstur Versacold og Atlas og ná fram frekari hagræðingu.

"Ég er mjög ánægður með að Brent Sugden hafi tekið áskorun okkar um að taka við rekstri beggja fyrirtækjanna sem enn um sinn verða rekin í sitt hvoru lagi," segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips í tilkynningunni.

"Mikilvæg verkefni eru framundan hjá báðum fyrirtækjunum og því skiptir sköpun að hafa sterkan stjórnanda sem stýrir fyrirtækjunum og þekkir markaðinn vel. Reyni bíða nú mikilvæg verkefni hjá Eimskip í Ameríku á sviði skipaflutninga m.a. í endurskipulagningu á rekstri þeirra félaga sem þar falla undir og að byggja upp sókn í Bandaríkjunum en við þessi verkefni mun reynsla hans nýtast vel.?