Í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út, er ljósi varpað á tæplega sextíu Íslendinga, sem hafa verið á uppleið í atvinnulífinu undanfarin misseri. Lögð er áhersla á yngra fólk og til marks um það er meðalaldurinn rétt rúmlega 37 ár. Á listanum eru 29 konur og 27 karlar. Í hópnum er fólk sem starfar í hinum ýmsu atvinnugreinum þjóðfélagsins eins og ferðaþjónustu, viðskiptalífi, verslun, byggingageiranum, sem og fólk sem hefur gert það gott í nýsköpun.

FV Forsíða
FV Forsíða
Frjáls verslun fékk valinkunnan hóp sérfræðinga til að tilnefna fólk á listann en þau eru: Andrés Jónsson, almannatengill og eigandi Góðra samskipta, Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, ráðgjafi hjá Aton , Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður nýsköpunar í Arion banka og einn af upphafsmönnum Startup Reykjavík, Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill og einn eigenda KOM, Heiðar Guðjónsson fjárfestir, Katrín S. Óladóttir, annar eigenda Hagvangs og Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu ( FKA ) .

Hér fyrir neðan má sjá brot af þeim einstaklingum sem eru á listanum.

Baldvin Þorsteinsson.
Baldvin Þorsteinsson.

Baldvin Þorsteinsson (35)

  • Baldvin Þorsteinsson er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja og stjórnarformaður Eimskips. Hann var forstjóri Jarðborana áður en hann tók við núverandi starfi sínu hjá Samherja. Baldvin hefur í gegnum tíðina setið í stjórn hjá fjölmörgum fyrirtækjum. Hann er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Baldvin lék einnig lengi vel handbolta við góðan orðstír, meðal annars hjá Val og FH. Hann á þar að auki að leiki að baki með A landsliði karla og mikinn fjölda leikja með yngri landsliðum.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Gréta María Grétarsdóttir (39)

  • Gréta María Grétarsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar ehf. í haust samhliða sameiningu Festi og N1. Krónan ehf. rekur verslanir Krónunnar, Nóatúns, Kr og Kjarvals. Gréta hafði verið fjármálastjóri Festi frá árinu 2016 en var forstöðumaður hagdeildar Arion banka á árunum 2010-2016. Þá hefur Gréta einnig starfað hjá Seðlabanka Íslands, Sparisjóðabankanum og Kögun/ VKS. Gréta er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði og B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands.

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir
Kristrún Tinna Gunnarsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Kristrún Tinna Gunnarsdóttir (35)

  • Kristrún Tinna Gunnarsdóttir er hagfræðingur og yfirverkefnastjóri hjá ráðgjafafyrirtækinu Oliver Wyman í Svíþjóð. Hefur hún, með stuttu hléi, unnið hjá sænska fyrirtækinu í sex ár. Einnig hefur hún starfað sem verkefnastjóri hjá Beringer Finance í Svíþjóð, sem og hjá Swedbank, Landsbanka Íslands og Arion verðbréfavörslu. Kristrún Tinna sat í fyrra í starfshópi á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Starfshópurinn vann Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Kristrún Tinna er með B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hún er með M.Sc. í hagfræði frá Stockholm School of Economics og er master í alþjóðastjórnun (MiM) frá sama skóla og ESADE-háskólanum í Barcelona. Þá er hún löggiltur verbréfamiðlari frá Háskólanum í Reykjavík.

Nánar má lesa um „Fólk á uppleið" í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi hér .